Útgjöld vegna húsnæðisbóta hækka um níu milljarða

Grunnfjárhæð húsnæðisbóta hækkar til einstaklingsheimila um 25% í kjölfar samþykktar …
Grunnfjárhæð húsnæðisbóta hækkar til einstaklingsheimila um 25% í kjölfar samþykktar frumvarps Svandísar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áætlað er að útgjöld ríkisins vegna húsnæðisbóta hækki um 2,3-2,5 milljarða króna á ári næstu fjögur árin eftir að Alþingi samþykkti frumvarp Svandísar Svavarsdóttur innviðaráðherra um breytingar á lögum um húsnæðisbætur.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef stjórnarráðsins.

Fram kemur að markmið laganna, sem samþykkt voru í síðustu viku, sé að styðja við nýgerða kjarasamninga til fjögurra ára á almennum vinnumarkaði með því að hækka húsnæðisbætur og auka þannig ráðstöfunartekjur heimilanna og draga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda.

Húsnæðisbætur hækki um 25%

Við breytingarnar verður tekið aukið tillit til fjölda heimilisfólks við útreikning húsnæðisbóta. Þannig munu grunnfjárhæðir og frítekjumörk vegna húsnæðisbóta taka til allt að sex heimilismanna í stað fjögurra áður.

„Tveir flokkar grunnfjárhæða húsnæðisstuðnings bætast við vegna fimm eða sex heimilismanna og þá hækka einnig frítekjumörk vegna heimila þar sem fimm eða sex búa,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að grunnfjárhæð húsnæðisbóta hækki til einstaklingsheimila um 25% frá því sem nú gildir. Aðrar grunnfjárhæðir munu hækka til samræmis. Skerðingarmörk vegna eigna hækka einnig í 12,5 milljónir króna en þau eru 8 milljónir króna í dag.

„Þannig munu húsnæðisbætur ekki falla niður fyrr en samanlagðar heildareignir heimilis ná 20 m. kr,“ segir í tilkynningunni.

„Full ástæða til þess að fagna“

Alls er gert ráð fyrir því að útgjöld ríkisins hækki um 9 milljarða króna alls á gildistíma kjarasamninganna, en lögin taka gildi 1. júní og taka til húsnæðisbóta sem greiddar eru frá þeim degi.

„Það er full ástæða til þess að fagna samþykkt þessara laga þar sem stuðningur við fjölskyldur á leigumarkaði er aukinn. Þær færa 9 milljarða króna til fólks með lægri tekjur á tímabili kjarasamninga og stuðla þar með að aukinni velferð og auknum jöfnuði í íslensku samfélagi,“ er haft eftir Svandísi í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert