Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu bárust 100 kjörseðlar ekki til Gran Canaria þar sem Íslendingar búsettir á eyjunni hugðust kjósa utankjörfundar í forsetakosningunum.
Margrét Sigurðardóttir, eða Magga massi eins og hún er gjarnan kölluð, hefur verið búsett ytra í sex ár ásamt Ríkeyju Garðarsdóttur maka sínum.
Er þetta í annað sinn sem kjörseðlar hafa ekki borist að hennar sögn.
„Okkur er sagt að kjörseðlunum hafi verið stolið. Nú fæ ég ekki að kjósa og við þurfum að koma aftur á föstudaginn,“ segir Margrét.
Að sögn Margrétar koma upplýsingar um stuldinn frá Söndru Pruckmayr, sem er aðstoðarmaður ræðismanns Íslands á Kanaríeyjum.
Um 80 manns voru saman komnir á föstudag til að kjósa í hverfinu í bænum Marspalomas.
Margrét segir málið hvimleitt því fólk hafi komið hvaðanæva að af eyjunni til að nýta atkvæðisréttinn. Sjálf býr hún í bænum Puerto Rico de Gran Canaria.
„Við viljum bara fá að kjósa eins og annað fólk heima. Hverjum dettur í hug að stela kjörseðlum?“
Ægir Þór Eysteinsson, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, sendir í svari við skriflegri fyrirspurn mbl.is að týndu kjörseðlarnir komi ekki til með að hafa áhrif á niðurstöðu kosninga.
Helgast það af því að kjörstjóri áritar sérstakt fylgibréf með hverju og einu atkvæði utankjörfundar.
„Í umræddri sendingu voru 100 kjörseðlar. Athygli er vakin á því að kjörstjóri áritar sérstakt fylgibréf með hverju og einu atkvæði og heldur sérstaka skrá þar sem bókað er m.a. nafn, kennitala og lögheimili kjósenda og hvar og hvenær kosið var og hjá hvaða kjörstjóra. Með þessu fyrirkomulagi er komið í veg fyrir að misfarið sé með glötuð kjörgögn.“