Ökumaður rafskútu handtekinn

Rafskúta.
Rafskúta. AFP

Ökumaður rafskútu var handtekinn í Reykjavík vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis.

Hann var ekki að valda rafskútunni og féll með þeim afleiðingum að hann slasaðist, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til kl. 5 í morgun.

Ökumaður rafskútunnar var látinn laus úr haldi lögreglu að blóðsýnatöku lokinni.

Veittist að fólki með hníf

Tilkynnt var um einstakling sem var að veitast að fólki með hníf í miðborg Reykjavíkur. Við rannsókn málsins reyndist enginn alvarlega slasaður. Einn meintur gerandi var handtekinn í þágu rannsóknar málsins og var hann vistaður í fangaklefa.

Einnig var tilkynnt um einstaklinga sem köstuðu grjóti í bifreið í hverfi 221 í Hafnarfirði.

Leigubifreiðar uppfylltu ekki kröfur

Höfð voru afskipti af þremur leigubifreiðum. Tvær þeirra uppfylltu ekki gæða- og tæknikröfur og eiga því von á sekt.

Tilkynnt var um innbrot í geymslur í hverfi 201 í Kópavogi, auk þess sem einn var handtekinn vegna gruns um sölu og dreifingu fíkniefna.

Þá var tilkynnt um húsbrot og þjófnað í hverfi 105 í Reykjavík. Jafnframt var tilkynnt um einstakling að stela reiðhjóli í miðbænum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert