Parísarhjól á Miðbakka í sumar

Parísarhjól mun rísa á Miðbakka þar sem hjólabrautin er.
Parísarhjól mun rísa á Miðbakka þar sem hjólabrautin er. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Parísarhjól verður sett upp á Miðbakka í sumar. Um er að ræða tilraunverkefni til eins sumars og mun Taylors Tivoli Iceland ehf. sjá um uppsetningu og rekstur á parísarhjólinu.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar.

Reykjavíkurborg auglýsti í mars eftir samstarfsaðila til að reka parísarhjól á Miðbakka og bárust fjórar umsóknir, en ákveðið var að bjóða Taylors Tivoli Iceland til viðræðna, en fyrirtækið hefur reynslu af rekstri annarra parísarhjóla. Samkomulagið var samþykkt á fundi borgarráðs í dag.

Búnaður sem þolir íslenskar aðstæður

Gildistími samkomulagsins er til lok september. Taylors Tivoli Iceland greiðir eina milljón á mánuði fyrir afnot á lóðinni.

Gengið hefur verið úr skugga um að búnaðurinn þoli íslenskar aðstæður, til að mynda vindálag og jarðhræringar. Lögð verður áhersla á góða hljóðvist og verða framkvæmdar hljóðmælingar á prufutímabili.

Parísarhjólið verður 32 metra hátt með 24 vagna, flestir þeirra hafa sex sæti en boðið verður upp á aðgengi fyrir hjólastóla.

Parísarhjól sambærilegt því sem mun rísa á Miðbakka.
Parísarhjól sambærilegt því sem mun rísa á Miðbakka. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Ein margra hugmynda um haftengda upplifun

Verkefnið er hluti af hugmyndavinnu innan borgarinnar um haftengda upplifun og útivist. Settar voru fram fjölmargar hugmyndir til að bæta lífsgæði borgarbúa og lýðheilsu í skýrslu sem kom út síðasta haust.

Vaxandi umræða er um kosti þess að hafa aðgengi að vatni, eða bláum svæðum; haf, ám, fossum eða vötnum. Búseta í nálægð við vatn er talin hafa jákvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu og stuðla að bættri hamingju og vellíðan.

Í Evrópu hafa blá svæði í auknum mæli verið viðurkennd sem aðlaðandi eiginleiki borga með tillit til ferðaþjónusta, afþreyingar og heilbrigðs lífsstíls.

„Haftengd upplifun?“

Áheyrnafulltrúi Flokks fólksins sem sat fundin gagnrýndi að ekki væri verið að vinna í samráði við íbúa og velti fyrir sér hvort að parísarhjól sé í raun „haftengd upplifun“ fyrir fólk. 

Að hans sögn mun staðsetningin hindra enn meira aðgengi að svæðinu sem er nú þegar afar erfitt fyrir sem og ýta undir önnur vandamál í umferðinni. Hann sagði að parísarhjól muni valda ónæði fyrir íbúa á svæðinu með hávaðartruflunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert