Kaldir vindar blása um miðbæinn og því gott að komast inn í hlýjuna í kosningaskrifstofu Katrínar Jakobsdóttur sem staðið hefur vaktina í pólitík í sautján ár; sem formaður VG, alþingismaður og ráðherra. Katrín mætir skömmu síðar, gengur rösklega inn og heilsar með virktum. Yfir heitu kaffi spjöllum við um fortíðina, framtíðina og reynsluna sem leiddu hana að þessari ákvörðun; að bjóða sig fram til embættis forseta lýðveldisins.
Við snúum okkur að nútíðinni og því embætti sem hún sækist nú eftir, en Katrín hefur skýra sýn á hlutverk forsetans og embættið.
„Sem Íslendingi hefur mér alltaf þótt vænt um þetta embætti. Formlegt hlutverk forseta og embættið er skilgreint í stjórnarskrá og mikið hefur verið rætt um málskotsréttinn og stjórnarmyndun og annað slíkt sem kallar á atbeina forseta. En síðan hefur forsetinn ýmsum öðrum hlutverkum að gegna en því sem kveðið er á um í stjórnarskrá. Hann hefur mikilvægu hlutverki að gegna á alþjóðavettvangi sem fulltrúi íslensks atvinnulífs, íþróttalífs, menningar- og listalífs og samfélagsins alls. Forseti þarf að geta tekið upp símann ef á þarf að halda til að verja hagsmuni Íslands. Ekki síst á forseti að tala fyrir þeim gildum sem við stöndum fyrir í samfélagi þjóðanna; lýðræði, mannréttindum, jafnrétti og friðsamlegum lausnum. Vitandi af reynslu hvað miklu máli skiptir að slíkar raddir heyrast á alþjóðlegum vettvangi, þá myndi ég segja að forseti Íslands ætti að vera sterkur talsmaður þessara gilda,“ segir hún og bætir svo við að forsetinn hafi síðast en ekki síst mikilvægu hlutverki að gegna innanlands.
„Ég hef skilgreint forseta sem sameinandi afl, frekar en sameiningartákn. Forsetinn þarf að sýna það í verki að hann er tilbúinn að hitta fólk á sínum heimavelli, hringinn í kringum landið. Hann þarf líka að hitta kynslóðirnar og ræða við unga sem aldna. Svo er samfélagið fjölbreyttara en áður þar sem hátt í tuttugu prósent þjóðarinnar er af erlendum uppruna, og forsetinn þarf líka að mæta þeim,“ segir hún og vill að forseti hvetji til þátttöku fólks í samfélaginu.
„Aðalsmerki íslensks samfélags er þátttaka og samheldni. Ég vil líka gera að umtalsefni íslenska menningu, tungu og sögu. Tungumálið er svo þéttofið tilvist okkar,“ segir Katrín og telur að forseti geti hvatt til góðra verka til varðveislu tungunnar.
„Því forsetaembættið er ekki valdaembætti heldur áhrifaembætti.“
Ítarlegt viðtal er við Katrínu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.