Ný gervikosning í tilefni af forsetakosningunum á að sýna hvernig kosningarnar gætu farið ef aðeins tveir tilteknir frambjóðendur myndu mætast í seinni umferð í tveggja umferða kosningu.
Henni er einnig ætlað að kanna hver áhrif ólíkra kosningakerfa gætu verið á kosningahegðun íslenskra kjósenda og niðurstöður kosninga hér á landi.
Í gervikosningunni getur fólk kosið sér forseta, bæði með núverandi kosningakerfi og með öðrum kosningakerfum sem hefur verið til umræðu að taka upp í forsetakosningum á Íslandi.
Netkosningin er hluti af rannsókn Indriða H. Indriðasonar, prófessors í stjórnmálafræði við Kaliforníuháskóla í Riverside, og Viktors Orra Valgarðssonar, nýdoktors í stjórnmálafræði við Southampton-háskóla.
„Okkur finnst áhugavert að kanna hvort að fólk virðist vera að kjósa taktískt og hvort að fólk myndi gera það öðruvísi samkvæmt öðrum kerfum sem eiga að reyna að takmarka taktíska kosningu,“ segir Viktor Orri í samtali við mbl.is
„Við erum meðal annars að kanna það hvort að fólk er að kjósa eins í þessum kosningum og það myndi gera ef það hefði til dæmis kost á því að forgangsraða frambjóðendum.“
Niðurstöðurnar verða birtar opinberlega skömmu eftir forsetakosningarnar sjálfar. Þær verða vigtaðar með tilliti til þess hversu mörg atkvæði hver frambjóðandi fékk í kosningunum, til að komast sem næst því hvort niðurstöður kosninganna gætu hafa verið aðrar ef önnur kosningakerfi hefðu verið notuð.
„Við gerðum svipaða rannsókn fyrir forsetakosningarnar árið 2012 og þá birtum við niðurstöðurnar í íslenska fræðiritinu Stjórnmál- og stjórnsýsla og við stefnum að því að gera það aftur,“ segir Viktor Orri.