Bjarki Jóhannsson kvikmyndatökumaður kveðst ekki hafa fengið neinar kvittanir frá kosningateymi Höllu Hrundar Logadóttur forsetaframbjóðanda vegna meintra kaupa á myndskeiðinu hans.
Myndskeiðið sem um ræðir er notað í auglýsingu hjá Höllu Hrund og Bjarki segir að Halla hafi notað það í leyfisleysi og án greiðslu sem væri höfundaréttarbrot, að hans sögn. Bjarki segir að hann hafi beðið kosningateymið um að sýna fram á kvittanir fyrir kaupunum en hefur teymið ekki sent honum kvittanirnar, að hans sögn.
Kosningateymi Höllu svaraði fyrirspurn mbl.is um ásakanirnar fyrr í kvöld og sögðu þau myndskeiðið hafa verið fengið úr alþjóðlegum myndabanka. Bjarki segir hins vegar í færslu sinni á facebook fyrir skömmu að svar kosningateymisins svari engu um fullyrðingar hans.
„En þar sagði ég að myndskeið í auglýsingu Höllu Hrundar Logadóttur forsetaframbjóðanda hafi verið notað í leyfisleysi og án þess að greiðsla hafi borist fyrir. Orkustofnun notað hins vegar myndskeiðið en greitt var fyrir það á sínum tíma.
Ég hef beðið um kvittanir fyrir því að efnið hafi verið sótt á myndabanka fyrir auglýsinguna en engar kvittanir fengið. Það er ólöglegt að sækja efni fyrir einn viðskiptavin á síðasta ári og setja það svo í annað verkefni á þessu ári, án þess að sækja efnið aftur. Málið snýst um það,“ segir í færslu Bjarka.