„Snýst um metnaðinn að ná árangri“

Róbert segir góðan aga og metnað vera þau gildi sem …
Róbert segir góðan aga og metnað vera þau gildi sem hann lærði af foreldrum sínum og þau séu lykilatriði í því að ná góðum árangri. Ljósmynd/Aðsend

„Ég hef alltaf lagt mikla áherslu á gott nám og hef mjög lengi haft gríðarlega mik­inn áhuga á viðskipt­um og þess vegna fór ég upp­haf­lega í Versl­un­ar­skól­ann,“ seg­ir Ró­bert Denn­is Solomon sem á laug­ar­dag­inn út­skrifaðist með láði frá Versl­un­ar­skóla Íslands með meðal­ein­kunn­ina 9,8 af hag­fræðilínu viðskipta­braut­ar skól­ans, sem er þriðja hæsta meðal­ein­kunn­in í ár­gang­in­um.

Þá vann hann til þrennra verðlauna, fyr­ir framúrsk­ar­andi ár­ang­ur í hag­fræði og þýsku á stúd­ents­prófi og svo hlaut hann verðlaun fyr­ir framúrsk­ar­andi ár­ang­ur á stúd­ents­prófi frá Ald­araf­mæl­is­sjóði Versl­un­ar­skól­ans.

Féhirðir nem­enda­fé­lags­ins

Ró­bert sinnti embætti féhirðis nem­enda­fé­lags­ins á þessu skóla­ári, enda seg­ist hann alltaf hafa haft mjög gam­an af fé­lags­störf­um.

„Það var mjög skemmti­legt og lær­dóms­ríkt og ég þurfti að vera í sam­skipt­um við mjög marga, nefnd­armeðlimi, nem­end­ur, skóla­stjórn­end­ur og fyr­ir­tæki. Svo þarf að halda utan um alls kon­ar upp­lýs­ing­ar sem tengj­ast fjár­mál­um nefnda og nem­enda­fé­lags­ins í heild. En ég er mjög stolt­ur af því sem við unn­um sam­an í nem­enda­fé­lag­inu og er þakk­lát­ur fyr­ir sam­starfið.“

Þá hef­ur Ró­bert einnig verið stjórn­ar­meðlim­ur hjá Sam­bandi ís­lenskra fram­halds­skóla­nema og var vara­formaður Ungra fjár­festa.

Á leiðinni í Whart­on

Þegar hann er spurður hvort hann liggi yfir skóla­bók­un­um all­an sól­ar­hring­inn til þess að ná þess­um ár­angri seg­ir hann það ekki vera. „Þetta snýst mest um að hafa metnaðinn til að ná ár­angri og gera eins vel og maður get­ur,“ seg­ir hann. „Það var oft krefj­andi að halda svona mörg­um bolt­um á lofti, bæði í nám­inu og fé­lags­störf­um, en með dugnaði, góðu skipu­lagi og góðu hug­ar­fari er allt hægt.“

Í haust mun Ró­bert hefja grunn­nám í The Uni­versity of Penn­sylvania, sem er einn af átta svo­kölluðum Ivy League-há­skól­um Banda­ríkj­anna. Ró­bert fer í Whart­on School of Bus­iness, viðskipta­skóla há­skól­ans, sem er tal­inn einn besti viðskipta­há­skóli í heimi og marg­ir fræg­ir viðskipta­mó­gúl­ar hafa stundað nám þar, og má þar nefna m.a. Elon Musk, War­ren Buf­fett og Robert S. Kapito.

13 millj­ón­ir króna á ári

„Það er gríðarlega mik­il sam­keppni um að kom­ast í þenn­an skóla en á sein­asta ári sóttu 59.000 nem­end­ur um og aðeins 5,8% þeirra komust inn,“ seg­ir Ró­bert, sem sótti einnig um fleiri fræga skóla og komst þar inn líka.

„Já, það er skemmti­legt að segja frá því að ég komst líka í fleiri skóla sem eru tald­ir með þeim bestu í heim­in­um, eins og London School of Economics and Political Science, Im­per­ial Col­l­e­ge London og King’s Col­l­e­ge London. Ég taldi hins veg­ar Whart­on bjóða upp á besta viðskiptanámið og þá sér­stak­lega í fjár­mál­um og því valdi ég hann.“

Námið í þess­um fræga skóla er hins veg­ar ekki ókeyp­is og kost­ar árið rúm­lega 13 millj­ón­ir „Námið er gríðarlega dýrt og ég er stöðugt að leita að styrkt­araðilum og hvet alla ein­stak­linga og fyr­ir­tæki sem hafa ein­hverj­ar til­lög­ur um fjár­öfl­un að hafa sam­band við mig á Face­book,“ seg­ir Ró­bert.

Svarta beltið

Ró­bert fædd­ist á Íslandi en for­eldr­ar hans eru frá Rúm­en­íu. Hann seg­ir að for­eldr­ar sín­ir hafi alltaf lagt mikla áherslu að hann myndi leggja sig fram í öllu sem hann tæki sér fyr­ir hend­ur. Ró­bert er með svarta beltið í kara­te sem hann fékk árið 2021, en hann byrjaði að æfa hjá kara­te­deild Breiðabliks árið 2013.

„Þetta er mjög skemmti­leg og áhuga­verð íþrótt og kenn­ir manni mik­inn aga og það að ef maður legg­ur sig mikið fram þá nær maður ár­angri. Það hvet­ur mig til að gera mitt besta,“ seg­ir hann. Ró­bert hyggst vinna í fjár­mál­um þegar fram líða stund­ir, en í sum­ar er hann að vinna hjá Lands­bank­an­um.

„Ég hlakka mjög mikið til að fara í nám til Banda­ríkj­anna, kynn­ast nýju fólki, tak­ast á við næstu áskor­an­ir og víkka sjón­deild­ar­hring­inn,“ nefn­ir hann í lok­in.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert