Seðlabankinn vill Þjóðarsjóðinn til sín

Seðlabankinn gerir athugasemdir við frumvarpið og leggur til ýmsar breytingar.
Seðlabankinn gerir athugasemdir við frumvarpið og leggur til ýmsar breytingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Seðlabanki Íslands vill hafa umsýslu með fyrirhuguðum Þjóðarsjóði.

Þetta leggur Seðlabankinn til í umsögn sinni um frumvarp til laga um Þjóðarsjóð.

Telur bankinn það fela í sér verulega hagræðingu að bankinn reki Þjóðarsjóðinn samhliða rekstri gjaldeyrisforða og þannig geti hann rekið sjóðinn með hagkvæmari hætti en aðrir. Í frumvarpinu er lagt til að  stjórn Þjóðarsjóðsins semji við bæra aðila um vörslu sjóðsins, áhættustýringu og eignastýringu.

Innviðirnir til staðar

Þá telur bankinn að  nauðsynleg þekking og innviðir séu til staðar innan bankans til að sinna rekstri Þjóðarsjóðsins. Því til stuðnings vísar hann til þess að fjárfest var í bakvinnslu-, miðvinnslu- og framlínukerfi sem sé sérhæft til að halda utan um verkefni sem eru sambærileg og Þjóðarsjóðurinn.  

Seðlabankinn bendir jafnframt á að Norðmenn hafa góða reynslu af því að hafa olíusjóðinn í vörslum seðlabanka Noregs.

Í umsögninni er bent á að hvergi er að finna áætlanir eða hugmyndir um hver gæti verið kostnaður einkaaðila vegna umsýslu og rekstrar Þjóðarsjóðsins sem gæti fullfjármagnaður numið um 400-500 milljörðum króna.

„Eignasafni sem ætlað er að vera viðlagasjóður þarf eðli málsins samkvæmt að ráðstafa í mjög seljanlegar eignir svo hægt sé að grípa til þeirra þegar óvænt áföll dynja yfir. Seðlabankinn viðheldur á öllum tímum lausafjársjóði í erlendum gjaldeyri sem samkvæmt fjárfestingastefnu skal nema a.m.k. 1,25 milljörðum Bandaríkjadala,“ segir í umsögninni.

Arðgreiðslur frá ríkisfyrirtækjum eins og Landsvirkjun eiga að renna í …
Arðgreiðslur frá ríkisfyrirtækjum eins og Landsvirkjun eiga að renna í Þjóðarsjóðinn. mbl.is/RAX

Seðlabankinn með sérstöðu

Í lausafjársjóði séu eingöngu innstæður og innlán hjá bönkum og seljanleg ríkisskuldabréf með háa lánshæfiseinkunn.

Samlegðaráhrifin felast því einnig í því að stjórn Þjóðarsjóðsins gæti ákveðið í sinni stefnu að taka tillit til lausafjársjóðsins og fjárfesta ætti hluta Þjóðarsjóðs í eignum sem hafa minni seljanleika og hærri vænta ávöxtun.

Seðlabankinn telur að ef Þjóðarsjóðnum yrði útvistað til einkarekinna fyrirtækja myndi það færa framkvæmdina og yfirsýnina fjær íslenskum stjórnvöldum. Aukinheldur myndi það að öllum líkindum hafa í för með sér minni vernd gegn málsóknum og skerta friðhelgi.

Ástæðan sé sú að seðlabankar njóta sérstakrar stöðu almennt og einkaaðilar geti aldrei notið sömu stöðu og seðlabanki sem banki ríkissjóðs hvað það varðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert