Baldur og Jón deila um málflutning hvor annars

„Ég er ekki sammála þeim málflutningi sem ég heyri hjá frambjóðendum, eins og til dæmis hjá Baldri, að forsetinn eigi að vera einhverskonar Alþingislögga sem endurskoðar allt sem Alþingi er að gera,“ segir Jón Gnarr forsetaframbjóðandi í forsetakappræðum Morgunblaðsins.

„Ég hef enga trú á því að forseti Íslands eigi að vera að stunda einhver óþarfa afskipti af starfsemi Alþingis og mér finnst Alþingið okkar bara mjög fínt og mjög góð stofnun og mér finnst hún virka og sýnt það á álagstímum sem hafa gengið hér yfir á síðustu árum,“ segir hann.

„Við eigum að taka höndum saman ef það er vantraust á Alþingi þá eigum við að hjálpast að við það að byggja upp það traust og sýna þau góðu verk sem Alþingi er að gera en ekki vera tala það niður eins og þarna séu bara tómir jólasveinar sem þarf að hafa sérstakt eftirlit með,“ segir Jón.

Hægt er að horfa á kappræðurnar í heild sinni hér

Eins og tími í skapandi skrifum

Baldur Þórhallsson forsetaframbjóðandi svarar Jóni Gnarr fullum hálsi í kappræðunum.

„Mér finnst mjög gaman að vera kominn í tíma hjá Jóni Gnarr í skapandi skrifum,“ segir Baldur.

„Ég hef alls ekki talað á þessum nótum. Ég hef nákvæmlega talað til dæmis á þeim nótum varðandi hið svokallaða lagareldisfrumvarp að forsetaframbjóðendur eigi ekki að vera tjá sig um það á meðan það er í smíðum á þingi,“ segir Baldur.

„Forseti skiptir sér ekkert af daglegum störfum þingsins á meðan það er að vinna og sinna sínum lagafrumvörpum,“ segir hann. Það sé þingræði í landinu og að það sé einungis þegar lög ganga fram af þjóðinni eða gangi gegn samfélagssáttmálanum þar sem málskotsrétturinn komi til greina.

„Málskotsrétturinn er bara neyðarhemill,“ segir Baldur.

Þannig þú ætlar ekki að verða Alþingislögga?

„Alls ekki. Það hef ég aldrei nokkurn tímann sagt,“ svarar Baldur.

Hann segir það mikilvægt að þingheimur og þjóðin viti að á Bessastöðum sitji maður sem sé tilbúinn að virkja neyðarhemilinn.

„Ímyndið ykkur forseta sem gefur það út að hann ætli eiginlega aldrei að virkja neyðarhemilinn,“ segir Baldur.

Finnst þér aðrir frambjóðendur hafa talað þannig?

„Já ég held að Jón Gnarr tali til dæmis á þeim nótum,“ svarar Baldur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert