Forsetakappræður Morgunblaðsins verða haldnar í dag og verður streymt á mbl.is klukkan 16.00. Gert er ráð fyrir að kappræðurnar standi yfir í rúma klukkustund.
Fyrir svörum verða þeir fimm forsetaframbjóðendur sem hlotið hafa 10% fylgi í skoðanakönnunum eða meira: þau Baldur Þórhallsson prófessor, Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri, Halla Tómasdóttir forstjóri, Jón Gnarr leikari og Katrín Jakobsdóttir fv. forsætisráðherra. Engir frambjóðendur aðrir hafa náð 10% fylgi í þeim viðurkenndu skoðanakönnunum sem gerðar hafa verið í aðdraganda forsetakjörs.
Blaðamennirnir Andrés Magnússon og Stefán Einar Stefánsson munu beina spurningum til frambjóðendanna og leitast við að hafa umræður markvissar og hvassar.
Um nóg er að ræða; bæði um forsetaembættið og yfirlýst áform frambjóðenda á forsetastóli. Þeir hafa sumir lýst vilja til að halda áfram að þróa embættið og auka vægi þess í stjórnsýslu og þjóðmálaumræðu, en aðrir vilja leitast við að halda tryggð við þær hefðir sem um það hafa skapast og viðhalda stjórnfestu í því.
Þá verður einnig spurt út í ýmis álitamál sem vaknað hafa í kosningabaráttunni, jafnt um embættið, völd þess og ábyrgð, sem og frumkvæði forseta í landstjórninni, mótvægi og mörk.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag