Katrín efst í nýrri könnun

Katrín er efst í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar.
Katrín er efst í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar. mbl.is/Óttar

Katrín Jakobsdóttir er efst forsetaframbjóðenda í nýrri könnun Félagsvísindastofnunar með 26,3% fylgi. 

Á vef Félagsvísindastofnunar er greint frá þjóðmálakönnun, sem gerð var dagana 22.-30. maí og var fólk spurt hvern það myndi kjósa sem forseta ef kosið væri í dag. Tekið var 3.250 manna úrtak úr netpanel Félagsvísindastofnunar. Alls bárust 1.734 svör.

Urðu niðurstöður könnunarinnar þær að Katrín Jakobsdóttir fékk 26,3% fylgi. Þar á eftir komu Halla Tómasdóttir með 18,5% og Halla Hrund Logadóttir með 18,4%. Baldur Þórhallsson er með 16,1% og Jón Gnarr er með 9,9%. 

Arnar Þór Jónsson er með 7,1% fylgi samkvæmt könnuninni, en hinir frambjóðendurnir sex fá 1,5% eða minna. 

Þegar rýnt er nánar í niðurstöðurnar kemur í ljós að Katrín höfðar jafn mikið til karla og kvenna. Er fylgi hennar mest meðal eldra fólks og minnst meðal yngsta aldurshópsins. Þá höfðar Katrín einkum til fólks í Suðvestur- og Norðvesturkjördæmi. Þá dreifist fylgi hennar frekar jafnt til hægri og vinstri þegar horft er til stjórnmálaskoðanna þeirra sem ætla að kjósa hana. 

Halla Tómasdóttir höfðar mun meira til kvenna en karla en 23,1% kvenna hyggjast kjósa Höllu samanborið við 13,7% karla. Þá er fólk líklegra til að kjósa Höllu eftir því sem það er yngra. Halla sækir fylgi sitt helst til Suðvesturkjördæmis, en 23,8% íbúa kragans hyggjast kjósa Höllu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert