Líkur á skertri orku sagðar aukast með ári hverju

Virkja þarf meira til þess að halda í við orkuþörf. …
Virkja þarf meira til þess að halda í við orkuþörf. Mynd tengist frétt ekki beint. mbl.is/Sigurður Bogi

Nauðsynlegt verður að halda vel á spöðunum í orkumálum, virkja nýja orku og byggja upp flutningskerfið til þess að minnka áhættuna á skerðingu á forgangsorku. Líkur á skertri orku aukist með hverju ári án inngrips.

Þetta kemur fram í nýjum kerfisjöfnuði Landsnets sem horfir til stöðu á framboði raforku til næstu fimm ára eða 2024 til 2028. Greint er frá því að mikilvægt sé að byggja upp flutningskerfið sem fyrst, en það eitt og sér komi ekki í veg fyrir skerðingu á raforku til notenda.

„Án uppbyggingar í flutningskerfinu og nýjum virkjunum eykst hættan á skerðingum umtalsvert á næstu 5 árum og áhætta á skerðingum á forgangsorku, sem eru umfram heimildir í samningum, eykst með hverju ári. Áhætta á skerðingum er mest á fyrsta og öðrum ársfjórðungi hvers árs. Uppbygging flutningskerfisins mun draga úr líkum á skerðingum til notenda raforku en munu ekki duga einar og sér til að tryggja að framboð mæti eftirspurn,“ segir í skýrslunni.

Staðan eins miðað við núverandi áætlanir

Þá séu fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir næstu ára ekki nægar til þess að spyrna frá botni og hafa áhrif á stöðuna heldur haldi þær málum einungis stöðugum.

„Virkjanir í núverandi ástandi hafa ekki burði til að anna aukinni raforkunotkun til næstu 5 ára óháð því hversu mikið næst að styrkja flutningskerfið. Virkjun nýrrar orku er nauðsynleg til að snúa þróuninni við. Fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir næstu 5 ára halda afl- og orkujöfnuði eingöngu í horfinu. Áhætta er á að líkur á skertri forgangsorku þrefaldist í slæmu vatnsári.“

Með uppbyggingu flutningsnetsins og frekari virkjun reiknar landsnet með að viðsnúningur sé mögulegur en þó muni taka einhvern tíma að snúa stöðunni við.

„Með uppbyggingu flutningskerfis og nýjum virkjunum mun ástandið byrja á að versna og réttir svo úr kútnum eftir árið 2026. Ekki má sofna á verðinum því að árið 2028 er verra en árið 2024. Áhætta er á að ekki verði hægt að mæta eftirspurn raforku yfir tímabilið 2024 – 2028. Ef framkvæmdir í flutningskerfi og nýjum virkjunum raungerast dregur úr áhættu á skerðingum forgangsorku. Áhætta á skerðingum á forgangsorku eykst í slæmu vatnsári og ef uppbygging flutningskerfis og nýrra virkjana tefst.“

Skýrslu Landsnets um málið má sjá með því að smella hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert