Atkvæðinu stolið og send heim án þess að kjósa

Frá kjörstað í Vallaskóla í Selfossi í dag.
Frá kjörstað í Vallaskóla í Selfossi í dag. mbl.is/Sigmundur Sigurgeirsson

„Þetta er hundleiðinlegt,“ segir Selfyssingurinn Þorgerður Björnsdóttir, en hún varð fyrir því óheppilega atviki í dag að einhver hafði þegar nýtt sér atkvæðarétt hennar er hún mætti á kjörstað.

Í samtali við mbl.is kveðst Þorgerður ekki ætla að kæra málið enda nenni hún ekki að standa í slíku. Vissulega sé svekkjandi að fá ekki að nýta kosningaréttinn en lítið að gera í stöðunni eins og er.

„Ef Katrín vinnur ekki þá er þetta allt í lagi.“

Skilríkjunum ekki stolið

Spurð hvað hún telji hafa gerst segir Þorgerður erfitt að segja til um það. Hún telji þó líklegast að viðkomandi hafi ekki verið beðin um að framvísa skilríkjum enda hafi hún sjálf upplifað áður að þurfa ekki að sýna skilríki. 

Bæði börn hennar hafi ekki verið beðin um að sýna skilríki á kjörstað í dag og hún viti ekki til þess að skilríkjum hennar hafi verið stolið.  

„Fyrst var ég að spekúlera hvort það væri einhver nafna mín hér nálægt en það er engin á Selfossi, svo ég viti, með mínu nafni,“ segir Þorgerður.

„En mér finnst ótrúlegt að þrír aðilar krossi vitlaust við.“

Mikilvægt að skoða skilríki allra

Hún segir mikilvægt að brýna fyrir starfsfólki á kjörstöðum að skilríkjum skuli framvísað þegar atkvæði er greitt. Hún hafi haft samband við Þóri Haraldsson, formann yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, og beðið hann að árétta þetta við starfsfólk.

Eins og er voni hún að sá sem hafi nýtt atkvæði hennar hafi alla vega kosið rétt.

„Ég var alin upp við það að nýta kosningaréttinn minn og legg rosalega upp úr því við börnin mín. Þetta er réttur sem við fengum 1915 og við eigum að nota hann.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert