„Tilfinningin í hjartanu er góð, mikil hlýja yfir öllum meðbyrnum sem við finnum og ekki síst af því að ég bauð mig fram fyrir unga fólkið og ég fékk tölur í gærkvöldi að unga fólkið er að velja mitt framboð og það er bara sigur í mínu hjarta nú þegar.“
Þetta segir Halla Tómasdóttir spurð af blaðamanni mbl.is á kjörstað hvernig tilfinningin fyrir deginum væri. Halla mætti í Ráðhús Reykjavíkur fyrir stuttu til að greiða atkvæði sitt þar.
Þá segir Halla að fjölskyldan ætli meðal annars að fara að borða saman í dag þar sem það hafi ekki gengið upp síðustu daga og vikur.
„Við ætlum að leyfa okkur að borða saman og svo ætlum við að fara á kosningaskrifstofuna og hitta stuðningsfólkið okkar, baklandið okkar og kjósendur. Það verða einhver viðtöl og svo verður kosningavaka í Grósku í kvöld og við eitthvað í sjónvarpinu,“ segir hún.
„En bara skemmtilegur dagur sem við ætlum að njóta til hins ýtrasta því alveg sama hvernig fer þá líður okkur eins og síðast, eins og við séum sigurvegarar. Búin að fara alla leið á gleði, einlægni, bjartsýni og trú á framtíðina sem við viljum móta með þjóðinni og mér sýnist það vera að lenda vel með þjóðinni.“