Sjöundi forseti Íslands kjörinn í dag

Frambjóðendur til forseta í ár.
Frambjóðendur til forseta í ár. Samsett mynd

Kosið er um hver verður sjöundi forseti lýðveldisins í dag. Valið stendur á milli 12 frambjóðenda. Sá þeirra sem fær flest atkvæði í kosningunum tekur við embætti forseta 1. ágúst.

Á kjörskrá eru 266.935 manns, 18 ára og eldri, að því er fram kemur á vef Þjóðskrár Íslands. Heldur fleiri konur eru þar skráðar en karlar, eða 133.868 á móti 132.921. Þeir sem eru skráðir kynsegin eða með hlutlausa kynskráningu eru 146.

Langfjölmennasta kjördæmið er Suðvesturkjördæmi, en þar eru skráðir 77.967 manns. Aftur á móti eru langfæstir í Norðvesturkjördæmi, eða 22.175. Kjörstaðir eru á annað hundrað í 64 sveitarfélögum víðs vegar um landið. Almennt eru kjörstaðir opnir frá klukkan 9 í dag til klukkan 22 í kvöld.

Þá tekur við talning atkvæða en talið verður á fimm stöðum: Í Laugardalshöll, Kaplakrika, Fjölbrautaskóla Suðurlands, Hjálmakletti í Borgarnesi og Háskólanum á Akureyri.

Gera má ráð fyrir fyrstu tölum á milli klukkan 22.15 og 22.30 úr Suðurkjördæmi og stuttu síðar frá Norðausturkjördæmi. Loka­töl­ur birtast lík­lega ekki fyrr en um klukk­an 7 í fyrramálið. Allt er þetta háð fyrirvara um ýmsa óvissuþætti og geta tímasetningar breyst, eðli málsins samkvæmt.

Meðalþátttaka í forsetakosningum á Íslandi hefur verið 68,7% á þessari öld, minnst árið 2004, 62,9%. Mest var hún árið 2016, eða 75,7%, þegar Guðni Th. Jóhannesson var fyrst kjörinn forseti. Á síðustu öld, frá forsetakosningunum árið 1952 til 1996, var meðalþátttaka 84,68%. Mest var hún árið 1968 þegar 92,2% þjóðarinnar kusu, en þá var Kristján Eldjárn kjörinn forseti. Minnst var þátttakan árið 1988 þegar Vigdís Finnbogadóttir fékk flest atkvæði og hóf sitt þriðja kjörtímabil sem forseti í kjölfarið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert