Halla: Mér líður ótrúlega vel

Halla Tómasdóttir á kosningavökunni í kvöld.
Halla Tómasdóttir á kosningavökunni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér líður bara ótrúlega vel. Ég veit að þetta er ekki búið fyrr en þetta er búið. Þannig að ég er líka bara að reyna að vera róleg og anda ofan í magann.“

Þetta segir Halla Tómasdóttir í samtali við blaðamann mbl.is sem náði tali af henni á kosningavöku hennar í Grósku í kvöld.

Manngrúi mætti til að fagna með Höllu en miðað við talin atkvæði stefnir í að hún verði næsti forseti lýðveldisins. Katrín Jakobsdóttir, sem er í öðru sæti, hefur játað ósigur og óskað Höllu til hamingju.

Munurinn kemur á óvart

Kemur þetta þér á óvart?

„Það kemur mér á óvart að munurinn skuli hafa verið þetta mikið yfir það sem kannanir sýndu. En ég fann samt að það var rosalega vaxandi meðbyr með framboðinu og ég fann að það lá einhver orka í loftinu sem var að stigmagnast síðustu daga og vikur.“ 

Það eru bara örfáir dagar síðan þú varst að mælast undir 10 prósentum í skoðanakönnunum.

„Í rauninni byrjar allt að breytast eftir fyrstu kappræður sem voru 3. maí. Þá var ég reyndar sárlasin og hélt mig ekki hafa staðið mig vel en það byrjar allt að breytast þegar kappræður byrja,“ svarar forsetaframbjóðandinn og bendir aftur á að hún hafi fundið fyrir stigvaxandi meðbyr eftir því sem nær hefur dregið að kosningum.

Talað um „klútabyltingu“ en ekki bindi karlanna

Halla hefur talað um „klútabyltingu“ nokkra. Spurð nánar út í það svarar hún:

„Ég mætti með klút vegna þess að ég var kvefuð. Svo fer umræða af stað, að ég var í bleikum jakka með bleikan klút. Þá fer umræða af stað hjá ungum konum.“

Frambjóðandinn gerði athugasemd við fjölmiðlaumfjallanir um klæðaburð kvenkynsframbjóðendanna. Það sé þetta sem nýja lagið hennar, „Halla House“, fjallar meðal annars um.

„Við tölum alltaf um fötin og umbúðirnar hjá konunum en enginn var að tala um bindin á karlframbjóðendum.“

Bjóst ekki við svona góðri mætingu

Bjóstu við svona mörgu fólki?

„Nei, ég verð að viðurkenna að þetta fer umfram væntingar. Og mér þykir vænt um að það sé svo margt ungt fólk hérna. En ekki bara ungt fólk, kynslóðirnar eru að skemmta sér saman hérna.“

Vegna mannfjöldans er afar heitt í Grósku og aðspurð kveðst Halla íhuga að taka af sér klútinn.

„Ég er næstum því að fara að taka klútinn af mér en þetta er eitthvað sem ég hef staðið fyrir þannig að ég er reyna áfram að vera góð fyrirmynd,“ segir hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert