„Þetta er ævintýralegur sigur“

Samsett mynd

Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann á Bifröst, segir sigur Höllu Tómasdóttur í nýafstöðnum forsetakosningum vera stórglæsilegan.

„Þetta er auðvitað mögnuð niðurstaða og er ekkert minna en stórkostlegur árangur hjá Höllu Tómasdóttur sem skaust frammúr á lokametrunum eftir að hafa mælst nánast með ekkert fylgi lengi vel. Þetta er ævintýralegur sigur,“ segir Eiríkur Bergmann við mbl.is.

Hann segir að það sem hafi gerst er að lengi vel hafi þrír frambjóðendur barist um það að teljast keppinautur Katrínar Jakobsdóttur og það hafi aldrei verið augljóst hver það væri.

Fylgið fór af Baldri og Höllu Hrund

„Nú gerðist það á síðustu tveimur dögunum að Halla Tómasdóttir náði þeirri stöðu og þá fór fylgið að safnast að henni. Það ótrúlega ris sem hún náði hélt áfram vegna þess að fylgið fór af Baldri og Höllu Hrund sem hefðu hugsanlega getað talist keppinautar.“

Hann segir að þetta skýri að Halla Tómasdóttir hafi skotist frammúr fyrir utan alla þá góðu kosti sem prýði hana.

Kaus þjóðin taktískt eins og sumir hafa haldið fram?

„Taktísk kosning þýðir í þessu tilviki einvörðungu það að fólk vill ekki kasta atkvæði sínu á glæ. Það vill kjósa einhvern sem það telur að eigi möguleika á sigri. Það er auðvitað taktísk kosning ef þú velur ekki þann sem þú vildir helst heldur einhvern annan. Það þýðir ekki endilega að atkvæðið sé gegn einhverjum tilteknum,“ segir Eiríkur.

Fylgi Katrínar var orðið fast

Eiríkur segir að það hafi sést á síðustu dögunum fyrir kosningarnar að hvorki Baldur né Halla Hrund hafi átti raunhæfa möguleika á sigri og þar með hafi farið töluvert af þeirra atkvæðum farið til þeirra sem áttu raunhæfa möguleika.

Hann segir að fylgi Katrínar hafi verið orðið fast og hafi ekki breyst mikið en það sem hafi gerst er að keppinauta fylgin hafi safnast að Höllu Tómasdóttur og það skýri niðurstöðu kosninganna að einhverju leyti.

Sex frambjóðendur fengu undir 1.500 atkvæði í kosningunum sem er sá fjöldi meðmæla sem þurfti til að bjóða sig fram. Eiríkur Ingi Jóhannsson sló met yfir fæst atkvæði í forsetakosningum en hann hlaut 101 atkvæði. Gamla metið átti Hildur Þórðardóttir sem fékk 294 atkvæði í forsetakosningunum 2016. 

„Fólk vissi það fyrir löngu síðan að enginn þessara sex átti möguleika og ég myndi kannski segja að það hafi aldrei verið nema fjórir – og hugsanlega fimm eftir atvikum – sem töldust eiga raunhæfa möguleika,“ segir Eiríkur Bergmann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert