Hefðu ekki komist ferða sinna án aðkomu lögreglu

Guðrún segir að réttur fólks til að mótmæla takmarkist við …
Guðrún segir að réttur fólks til að mótmæla takmarkist við það að mótmælin séu friðsæl. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn

Án aðkomu lögreglumanna í mótmælum stuðningsmanna Palestínu fyrir utan ríkisstjórnarfund síðasta föstudag þá hefðu ráðherrar ekki komist til og frá ríkisstjórnarfundinum.

„Ég vil fá að nefna það að ef lögreglan hefði ekki verið á staðnum þennan föstudagsmorgun þá hefðu ráðherrar ekki komist á ríkisstjórnarfund né frá fundi.“

Þetta sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi fyrr í dag.

Réttur fólks til mótmæla takmarkast við að mótmæli séu friðsæl

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir beindi fyrirspurn sinni að Guðrúnu og gagnrýndi hana fyrir það að hafa sagt að lögreglan hafi brugðist rétt við. Lögreglan beitti piparúða gegn mótmælendum sem hindruðu för ráðherra.

Þá ýjaði Þórhildur að því að Guðrún vissi ekki hver réttur borgara til friðsælla mótmæla væri, þar sem Guðrún hafði sagt við fjölmiðla að mótmælendur mættu mótmæla á friðsælan hátt. Ef mótmælendur færu gegn skýrum fyrirmælum lögreglu væru þau ekki lengur friðsæl.

„Ég vil leggja aftur áherslu á það að rétturinn til mótmæla er stjórnarskrárvarinn og einnig í mannréttindasáttmála Evrópu og það telst til grundvallarréttinda í lýðræðislegu samfélagi að mótmæla. Það er rétt hjá háttvirtum þingmanni og því er ég sammála,“ svaraði Guðrún og bætti við:

„Það sama skildir réttinn til að koma saman með friðsömum hætti, þar fellur rétturinn til mótmæla þar undir. En réttur fólks takmarkast við að mótmæli séu friðsamleg og þann rétt eigum við að sjálfsögðu að standa vörð um.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert