Starfsmaður VG: Samstarfið að þurrka út flokkinn

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, formaður Vinstri grænna, Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Starfsmaður þingflokks Vinstri grænna (VG) segir að langstærstan hluta fylgistaps VG megi rekja til þess að flokkurinn sé í ríkisstjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Samstarfið sé að þurrka út flokkinn.

„Þessu ríkisstjórnarsamstarfi hafa fylgt alls konar mis-kræsilegar málamiðlanir, varnir og yfirlýsingar vegna hinna og þessa mála. Og þau hafa alveg verið nokkur, málin, síðustu sex ár: Landsréttur, brottvísanir, Ásmundarsalur, dómsmál, þyrluferð, lögregluofbeldi, Samherji, bankasala og svo mætti lengi telja,“ skrifar Sunna Valgerðardóttir, starfsmaður þingflokks VG, í færslu á facebook fyrr í kvöld.

„Og þó að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsókn hafi vissulega látið á sjá í þessu samstarfi, þá eru þeir enn langt frá því að detta út af þingi.“

Sunna Valgerðardóttir er starfsmaður þingflokks Vinstri grænna.
Sunna Valgerðardóttir er starfsmaður þingflokks Vinstri grænna. Ljósmynd/Aðsend

VG að vinna með „andstæðingunum“

VG mælist með rúmlega 3% fylgi í nýjum þjóðarpúlsi Gallup og næði ekki manni inn á þing ef gengið yrði til kosninga í dag, miðað við könnunina. Sunna segir að VG séu miðað við þetta búin að missa 75% af kjörfylgi sínu.

„Og það er sennilega ekki vegna þess að matvælaráðherrar VG aðhyllast síður hvalveiðar. Nei. Það er vegna þess að flokkarnir, fólkið, sem VG átti að veita aðhald, gagnrýna og rífast við, urðu makkerar þeirra. Og það samstarf er að þurrka flokkinn út.“

Hún segir að fólk sem aðhyllist grunngildi VG finni ekki farveg þeirra lengur innan flokksins, „vegna þess að VG vann með andstæðingunum".

Hún kveðst vonast til þess að samstarfið verði ekki banabiti flokksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert