Brotthvarf Katrínar gæti haft áhrif

Guðmundur Ingi Guðbrandsson hefur leitt VG í tæpa tvo mánuði. …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson hefur leitt VG í tæpa tvo mánuði. Flokkurinn mælist nú með 3% fylgi. mbl.is/Árni Sæberg

Vinstri græn mælast með sögulega lágan stuðning í nýrri skoðanakönnun Gallup og ýmsar útskýringar kunna að liggja þar að baki. Þar á meðal brotthvarf Katrínar Jakobsdóttur úr formannsstólnum. 

Þetta segir Eva Heiða Önnudóttir stjórnmálafræðingur í samtali við mbl.is.

Hún segir að í fyrsta lagi þá sé engin kosningabarátta í gangi og að á miðju kjörtímabili þá mælist stuðningur við flokka oft öðruvísi en það sem kemur upp úr kjörkössum. Þetta sé þó lægsta mæling Vinstri grænna, að því er hún man eftir.

Óljóst hver tekur við VG

„Mögulega getur þetta brotthvarf Katrínar haft áhrif þar en þetta er örugglega líka hluti af lengra tímatrendi,“ segir Eva.

Hún segir ekki vitað hver taki við af Vinstri grænum þó að Guðmundur Ingi Guðbrandsson sé formaður fram að næsta landsfundi.

„VG á eftir að sýna hver á eftir að taka við forystunni, hver ætlar að leiða flokkinn í næstu kosningum og þá gætu línurnar eitthvað breyst.“

Samfylkingin mælist með 30% fylgi og eflaust fer eitthvað af fylgi Vinstri grænna til þeirra, að hennar sögn. Þá mælast Sósíalistar með 4% fylgi.

„Þar eru náttúrulega róttækir vinstrisinnar og höfða þá til róttækra vinstri sinnaðra kjósenda,“ segir Eva.

Gæti breyst þegar kosningabaráttan hefst

Fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist 18% og Eva segir því að eitthvað sé að gerast þar meðal kjósenda, þó hún telji að slík yrði ekki niðurstaðan í kosningum.

Hún segir að kannanir endurspegli stöðuna nokkurn veginn eins og hún er í dag en ítrekar að flokkarnir séu ekki í kosningabaráttu að kynna sín málefni, áherslur og álíka.

„Um leið og kosningabaráttan byrjar þá sér maður þessar fylgistölur flestar breytast. Að sama skapi eins og Samfylkingin er búin að mælast svona hátt undanfarið, er ekkert víst að það verði þegar kemur að kjördegi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert