Þingmaður Viðreisnar segir að ríkisstjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Vinstri grænna (VG) hangi á bláþræði. VG þefi nú upp tilefni til að sprengja samstarfið.
„Hafi einhver verið í vafa um það hvort tengsl væru milli forsetakosninga og ríkisstjórnarsamstarfsins blasir svarið við núna þegar við komum til baka inn í þingið og hér er bókstaflega hægt að skera loftið eftir úrslitin,“ sagði Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, á Alþingi fyrr í dag í umræðum um störf þingsins.
Hún minntist á könnun Gallup sem kom út í gær þar sem fram kom að VG væri með rétt rúmlega 3% fylgi.
„Rólegheitin í aðdraganda forsetakosninga voru auðvitað algjört svikalogn og nú erum við að ræða um það hvaða mál sé hægt að klára á næstu dögum en við okkur blasir á sama tíma að ríkisstjórnarsamstarfið hangir á bláþræði.“
Hún sagði stór mál bíða afgreiðslu á þinginu en þrátt fyrir það þá væri lítið að gerast.
„En við finnum alveg hvernig andrúmsloftið er. Við finnum líka að að minnsta kosti einn ríkisstjórnarflokkanna er núna farinn að þefa uppi móðganir og tilefni til að sprengja ríkisstjórnarsamstarfið,“ sagði Þorbjörg og bætti við:
„VG situr kannski við ríkisstjórnarborðið og skoðar það hvort servíettubrotið sé rangt. Þau leita nú að tilefni til að yfirgefa samstarfið við eftir sjö ár.“
Að lokum sagði hún stóra pólitíska spurningu blasa við, hvort að ríkisstjórnin væri á fyrstu dögum júnímánaðar að klára sig sjálfa.