Efast um þörf á fleiri virkjunum

Sigríður segir í viðtali hjá Snorra Mássyni ritstjóra að fleiri …
Sigríður segir í viðtali hjá Snorra Mássyni ritstjóra að fleiri og fleiri virkjanir séu ekki besta lausnin við álagstoppum í raforkunotkun. mbl/Arnþór Birkisson

„Margir eru auðvitað æstir í að virkja og halda að það sé lausnin, að virkja meira. Að einhverju leyti getur það auðvitað hjálpað til að bæta við einni eða tveimur virkjunum, en það breytir því ekki að engu að síður stæðum við frammi fyrir svona álagstoppum eftir sem áður."

Þetta sagði Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali hjá Snorra Mássyni, sem heldur úti hlaðvarpinu Snorri Másson ritstjóri.

Eins og kunnugt er þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn talað fyrir því að auka raforkuframleiðslu. 

Skilur ekki hvað drífur „virkjunarsinna“ áfram

Sigríður kvaðst ekki skilja hvað það væri sem drifi „þessa virkjunarsinna“ áfram. Hún sagði að álagstoppar í raforkunotkun væri eitthvað sem þyrfti alltaf að gíma við og að orkugjafar eins og olía væru vænlegri og sparneyttari kostur til að takast á við þá.

„Það er ekki heiðarlegt að viðurkenna ekki það sem blasir við, að ákveðin ábatagreining leiðir það í ljós að það er auðvitað í margvíslegu tilliti skynsamlegra að nýta olíu og jarðefnaeldsneyti þegar þessir álagstoppar eru. Til dæmis í nokkra daga, eins og sem dæmi í þessum bræðslum austur á landi,“ sagði hún og bætti við:

„Það er skynsamlegra að gera það heldur en að eyða mörg hundruð milljörðum ásamt tilheyrandi álagi á umhverfið í þeirri viðleitni að virkja til að mæta þessu. Þetta er einfalt reikningsdæmi. Mér hefur fundist hægrimenn fara fram úr þessu í ákafa sínum til að reyna að marka sér sérstöðu gegn vinstrimönnum í þessu.“

Snorri Másson er ritstjóri Ritstjóra.
Snorri Másson er ritstjóri Ritstjóra. Ljósmynd/Aðsend

Misskilningur að allt þurfi að vera grænt

Snorri Másson sagði áhugavert að fylgjast með hægrimönnum tala á þann veg að allt þyrfti að verða endurnýjanlegt og grænt og þá sagði Sigríður:

„Það er alger misskilningur. Staðreyndin er bara sú að staðan eins og hún er í dag er trúlega mjög nálægt því sem hagkvæmast er, þótt auðvitað eigum við að fara í að laga dreifikerfið okkar á skynsamlegum hraða og byggja það upp um allt land.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert