„Tján­ing­ar­frelsið gild­ir jafnt um ólík­ar skoðanir“

Hópur fólks hyggst höfða mál gegn íslenska ríkinu vegna valdbeitingar lögreglu við mótmæli fyrir utan ríkisstjórnarfund þann 31. maí, en þá beittu lögregluþjónar piparúða gegn mótmælendum.

Mótmælin voru haldin í Skuggasundi í miðborginni og tengdust átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Lögregla beitti piparúða og þurftu nokkrir mótmælendur að leita upp á bráðamóttöku eftir að hafa fengið mikið magn af úða í augun á sér.

„[Málið er] byggt á því að lögregla hafi gengið fram með ólögmætum hætti og umfram tilefni,“ segir Oddur Ástráðsson, lögfræðingur hópsins, í samtali við mbl.is.

„Tjáningarfrelsið gildir jafnt um ólíkar skoðanir.“

Kjarnatriði í lýðræðissamfélagi

Lögmaðurinn telur aðför lögreglu brjóta gegn mannréttindum fólk til safnast saman og nýta tjáningarfrelsi sitt og því mikilvægt að sækja málið enda sé réttur fólks til þessa kjarnaatriði í lýðræðissamfélagi - hvað sem málstaðnum líði.

„Það má ekki hamla eða skerða þann rétt nema að það séu þá önnur eða mikilvægari sjónarmið eða hagsmunir sem þar eru í húfi.“

Segir hann dæmi um dóma úr Mannréttindadómstól Evrópu sýna að stjórnvöldum sé ekki heimilt að bregðast við mótmælum með offorsi eða valdbeitingu þrátt fyrir að þau fari fram með slíkum hætti að þau trufli eða tefji. Það geti eingöngu átt við ef mótmælin séu farin að valda líkamsmeiðingum eða eignaspjöllum.

„Við teljum alveg ljóst að það hafi ekki verið neitt þannig á ferðinni.“

Oddur segir ekki annað að sjá af myndböndum en að …
Oddur segir ekki annað að sjá af myndböndum en að mótmælendur hafi verið friðsamlegir og að ófriður hafi í raun fyrst brotist út er lögregla hóf piparúða á loft. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sama eigi ekki við um öll mótmæli

Kveðst hann bæði hafa heyrt frásagnir af atburðarásinni og séð myndbönd af atvikunum sem ekki sé hægt að sjá annað af en að mótmælendur hafi verið friðsamlegir og að ófriður hafi í raun fyrst brotist út er lögregla hóf piparúða á loft.

Það rími ekki við stefnu þeirra sem skipuleggja mótmælin, sem hafi markað skýra stefnu um að þau skuli fara fram með friðsælum hætti.

Hann segir umhugsunarvert að lögregla beiti svo mikill hörku gegn mótmælendum sem fari fyrir málstað Palestínu. 

Oddur Ástráðsson lögmaður hópsins.
Oddur Ástráðsson lögmaður hópsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eigi að kveða þetta í kútinn sama hvað það kostar

Sömuleiðis megi líta til viðbragða yfirvalda bæði í Evrópu og Bandaríkjunum þar sem lögregla hafi brugðist afskaplega hart við Palestínumótmælum. 

„Það er þetta sem maður hefur áhyggjur af almennt og yfirhöfuð að það eigi að kveða þetta í kútinn eiginlega sama hvað það kostar. Það er bara ólýðræðislegt.“

Lögregla beitti piparúða á mótmælendur fyrir utan ríkisstjórnarfund í síðustu …
Lögregla beitti piparúða á mótmælendur fyrir utan ríkisstjórnarfund í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert