Sjö mótmælendur hyggja á málsókn gegn ríkinu eftir að lögregla beitti táragasi á þá í mótmælum þegar ríkisstjórnarfundur var haldinn þann 31. maí.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra gerir ekki athugasemdir við það og segir fólki frjálst að leita réttar síns ef það telur á sér brotið.
„Lögreglan var í krefjandi aðstæðum. Hún ákvað sjálf að safna öllum myndum úr búkmyndavélum og úr öðrum myndavélum á svæðinu. Hún ákvað sjálf að vísa þessu til nefndar um eftirlit með lögreglu. Við munum bíða og sjá niðurstöðu þeirrar nefndar. Það verður eftir einhverjar vikur. Ég legg áherslu á að það er eftirlit með lögreglu og það virkar,“ segir Guðrún.
Þau myndbönd sem birst hafa á samfélagsmiðlum sýna ekki ofbeldisfulla hegðun mótmælenda. Er ekki áhyggjuefni að lögregla beiti piparúða of snemma?
„Nú ætla ég ekki að tjá mig um einstaka mál í smáatriðum. En ég vil benda á að ég virði rétt fólks til að tjá skoðanir sínar og þar með að mótmæla. En ég er þeirrar skoðunar að í hverjum þeim mótmælum sem eiga sér stað og fólk hlítir ekki fyrirmælum lögreglu, þá dreg ég í efa að slík mótmæli séu friðsamleg,“ segir Guðrún.
„Þegar lögregla hefur beðið fólk að fara eftir fyrirmælum sínum en það gerir það ekki þá erum við á öðrum stað stödd þegar kemur að mótmælum,“ bætir hún við.
„Valdbeiting er viðkvæmt úrræði sem mjög sjaldan á að grípa til.“