Sakaði forsætisráðherra um firringu

Kristrún Frostadóttir í eldhúsdagsumræðum þingsins 2024.
Kristrún Frostadóttir í eldhúsdagsumræðum þingsins 2024. mbl.is/Arnþór

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, fór hörðum orðum um ríkisstjórnina og Bjarna Benediktsson forsætisráðherra í eldhúsdagsræðu sinni á Alþingi í kvöld.

Sagði hún núverandi ríkisstjórn vera komna á endastöð.

Kristrún velti erfiðri efnahagsstöðu landsins upp og segir Samfylkinguna ætla sér að „endurheimta efnahagslegan stöðugleika“.

Þá sé það langtímamarkmið hjá flokknum að endurreisa velferðarkerfið hér á landi. Hún lofaði því að verðbólgan lækki undir stjórn Samfylkingarinnar.

„Samfylkingin mun endurheimta efnahagslegan stöðugleika og kveða niður verðbólgu og vaxtastig. Og þetta er loforð. Ég heiti því að tryggja aftur efnahagslegan stöðugleika fyrir fólkið í landinu, með ábyrgum ríkisfjármálum. Við munum gera það sem þarf til að passa upp á efnahag venjulegs fólks sem ríkisstjórnin hefur sett á hvolf, því miður, með hæstvirtan Bjarna Benediktsson forsætisráðherra í broddi fylkingar.

Við höfum getuna, hæfnina og agann sem þarf og við erum fyllilega meðvituð um að þetta er frumforsenda þess að hægt verði að endurreisa velferðarkerfið á næstu árum. Samfylkingin er flokkur ábyrgra ríkisfjármála og efnahagslegs stöðugleika,“ sagði Kristrún.

Sakar forsætisráðherra um firringu

Þá sakaði hún forsætisráðherra um firringu þegar komi að ríkisfjármálum og nefnir að í eitt ári hafi vextir verið 9%, í fjögur ár hafi verðbólga verið yfir settum markmiðum og ríkissjóður hafi verið rekinn í halla í níu ár.

„Er þetta virkilega það sem Sjálfstæðisflokkurinn kallar ráðdeild í ríkisfjármálum? Forsætisráðherra hæstvirtur virðist vera í fullkominni afneitun og þegar ég spurði um þessa stöðu í þinginu um daginn þá kallaði hann þetta, með leyfi forseta: „bestu efnahagslegu stöðu í lýðveldissögunni“. Þvílík aftenging við efnahagslegan veruleika almennings. Maður sem er svo firrtur fyrir vandanum, sem hann hefur sjálfur skapað, er augljóslega ófær um að koma okkur út úr þessari stöðu,“ sagði Kristrún.

Þrotin staða

Hún velti því upp hve lengi þjóðin þyrfti að þola núverandi ríkisstjórnarsamstarf. Ástandið sé ekki boðlegt. Samfylkingin sé búin að ráðast í endurbætur innan flokksins og vilji bæta velferðarkerfið í landinu. Fyrsta skrefið sé þó að efnahagslegum stöðugleika verði komið á á ný. Þá kallar hún eftir því að boðað verði til kosninga sem fyrst. 

[Þ]egar erindið er svo augljóslega þrotið þá er það rétta í stöðunni að færa valdið aftur í hendur fólksins með því að boða til kosninga.“

[F]ram að kosningum má vona að ríkisstjórnin bæti ráð sitt. En því fyrr sem þjóðin fær tækifæri til að gera upp við ríkisstjórnina, og svara fyrir sig með kjörseðlinum, því betra,“ sagði Kristrún að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert