Stjórnarandstaðan tali fyrir stjórnleysi

Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra í eldhúsdagsumræðum þingsins 2024.
Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra í eldhúsdagsumræðum þingsins 2024. mbl.is/Arnþór

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra talaði í eldhúsdagsræðu sinni fyrir því að styrkja þyrfti útlendingalöggjöfina.

Sagði hún Ísland ekki geta tekið á móti ótakmörkuðu magni flóttafólks og að tryggja þyrfti að fólk sem setjist hér að læri tungumálið og sé virkur samfélagsþegn. Hún segir stjórnarandstöðuna tala fyrir áframhaldandi stjórnleysi í málaflokknum.

„Við hljótum einnig að vera sammála um að það álag sem hefur verið á innviði okkar undanfarin ár er meira en þeir þola. Það á ekki að vera feimnismál að benda á þá staðreynd að tæplega 400 þúsund manna samfélag getur ekki takmarkalaust opnað faðm sinn fyrir öllum þeim fjölda fólks sem hingað leitar. Við viljum gera vel, en það getur enginn stjórnmálaflokkur fært haldbær rök fyrir því að eitt fámennasta ríki í Evrópu hafi veikasta regluverkið þegar kemur að útlendingum. Það er risavaxin áskorun fyrir fámenna þjóð þegar fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd hefur aukist um 3700% á rétt rúmum áratug eins og raun ber vitni,“ sagði Guðrún.

Stytta málsmeðferðartíma og taka á brottvísunum

Hún benti einnig á að Ísland fái, hlutfallslega, flestar umsóknir sé litið til Evrópuríkja en það skýrist af því að í núverandi kerfi séu of margar glufur og regluverkið of veikt. Umsóknum um alþjóðlega vernd hafi þó fækkað umtalsvert.

„Eitt er víst, að ef stjórnarandstaðan fengi að ráða væri hér ekki talað um fækkun heldur áframhaldandi fjölgun og áframhaldandi stjórnleysi,“ sagði Guðrún og benti á að stytta þurfi málsmeðferðartíma og taka betur á brottvísunum þeirra sem hafi fengið synjun um vernd.

„Það er sjálfsögð og eðlileg lágmarkskrafa að þeir sem dvelja hér á landi, hvort sem um er að ræða Íslendinga eða aðra, að þeir fari eftir íslenskum lögum. Þess vegna segi ég skýrt að það er mín skoðun að ef flóttamaður gerist uppvís um alvarlegan glæp á Íslandi á að svipta hann dvalarleyfi. Það er frumskylda mín sem ráðherra og stjórnvalda að tryggja öryggi borgara í þessu landi og vil ég því setja sambærilegt ákvæði í íslensk lög og finna má á hinum Norðurlöndunum hvað þetta varðar.“

Engum flokki betur treystandi í útlendingamálum

Þá nefndi hún mikilvægi þess að viðhalda velferðinni sem við búum við en til þess verði að stemma stigu við þeim fjölda fólks sem til landsins komi. Þannig sé hægt að ganga úr skugga um að allir sem hér búi fái sömu tækifæri „til vaxtar og farsældar“.

Að lokum sagði Guðrún engum flokki „betur treystandi“ fyrir útlendingamálum en Sjálfstæðisflokknum. Þá fagni hún þeim breytingum sem séu væntanlegar á útlendingalöggjöfinni.

„Ég fagna því að breytingar verði gerðar á útlendingalöggjöfinni okkar, en um er að ræða veigamestu breytingar á málaflokknum í áraraðir, en einnig að sátt hafi náðst í ríkisstjórn um sameiginlega sýn í málaflokknum. Ég mun áfram rísa undir ábyrgð og ég hræðist ekki vegferðina fram undan,“ sagði Guðrún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka