VG fái mannréttindastofnun en kyngi rest

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, skaut föstum skotum á ríkisstjórnina.
Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, skaut föstum skotum á ríkisstjórnina. mbl.is/Arnþór

„Þingið sem senn verður slitið hefur fyrir margra hluta sakir verið sérstakt. Enn á það möguleika á að verða bara næst undarlegasta þingið á líftíma þessarar ríkisstjórnar, en það er fjarri því öruggt að það taki ekki toppsætið.“

Þetta sagði Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld.

Bergþór skaut föstum skotum á stjórnarflokkana. Hann sagði það hljóta að gleðja þingflokk Sjálfstæðisflokksins að kjamsa á nýrri mannréttindastofnun sem bætist við allar stofnanirnar sem þegar eru til staðar. Auk þess hljóta ófjármögnuð listamannalaun og Þjóðarópera að hafa glatt þingflokkinn.

Ríkisstjórnin getur skakklappast í rúmt ár

„Vinstri grænir gleðjast svo yfir því að hafa samþykkt ný útlendingalög, sem eru til bóta þó enn sé of skammt gengið. Breyting á lögreglulögum er þeim eflaust mjúkur biti undir tönn, enda útilokað fyrir Sjálfstæðisflokkinn að sjá það mál ekki klárast, það væri beinlínis niðurlægjandi yrði það niðurstaðan,“ sagði Bergþór. En þar sem Vinstri græn fái mannréttindastofnunina kyngi þau rest.

Hann sagði Framsóknarflokkinn halda áfram baráttunni við sjálfan sig og virðist meirihluti lykilfrumvarpa flokksins ekki fullfjármögnuð. Ætlunin sé að senda vandamálin á næstu ríkisstjórn sem fái að útskýra til dæmis fyrir óperuunnendum að þingmannakórinn verði að syngja í nýju Þjóðaróperunni vegna fjárskorts.

„Þessi ríkisstjórn getur skakklappast áfram í eitt ár og hundrað daga til ef hún reynir á allt sem hún getur, en það er auðvitað alltaf hætta á því, en sjáum til,“ sagði Bergþór að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert