Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu talaði í síðustu viku við 26 konur, sem allar voru af erlendu bergi brotnar, vegna auglýsinga um sölu á vændi.
Þetta staðfesti Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
„Við gerum þetta annað slagið, að fara svona og ræða við fólk sem að auglýsir vændi til sölu. Og það er ekki vegna þess að við séum að fetta fingur út í það endilega að það sé verið að selja vændi, heldur snýst þetta meira um það að kanna hvort að þeir sem að eru í þessu séu hugsanlega fórnarlömb mansals. Og síðan eftir atvikum bjóða þeim aðstoð, sem eftir atvikum myndu svara með þeim hætti að þau væru fórnarlömb mansals,“ segir Grímur.
„Við höfum gert þetta stundum, að fara í svona aðgerðir og hafa með þessum hætti samband við fólk og það vorum við að gera núna.“
Spurður hvort að um reglubundna aðgerð sé að ræða segir hann þetta vera „óreglulega reglubundið". En ákveðnar síður þar sem vændi sé auglýst séu vaktaðar.
Ekki hafi verið rætt við neina kaupendur vændis í tengslum við þessar aðgerðir. Slík mál séu öðruvísi í framkvæmd.
„Aðgerðirnar snéru meira að því að hafa samband við þær sem eru að auglýsa og bjóða vændi til sölu. Í þessum aðgerðum vorum við ekki að hafa samband við þá sem voru að kaupa.“
Þá segir hann að sá fjöldi kvenna sem hafi verið rætt við sé dálítið umfram það sem hafi verið áður. Það sé vegna þess að lengri tími gafst til aðgerðanna í þetta sinn.
„Ég tek það fram að það voru nokkrir dagar sem fóru í þetta, þetta var alveg í heila viku,“ segir Grímur en vanalega séu einn til tveir dagar sem fáist í aðgerðir sem þessar.
Spurður hvort aðgerðirnar tengist þeim mansalsmálum sem hafi nú nýlega komið á borð lögreglu segir hann svo ekki vera. Þau mál séu ótengd og standi ein.