Tvær helstu ástæður fyrir uppsögnum á öllu starfsfólki Running Tide á Íslandi eru erfið skilyrði til að fjármagna nýsköpunarfyrirtæki og tregi stjórnvalda á alþjóðavísu til þess að setja í lög hver eigi að greiða fyrir kolefnisbindingu.
Þetta segir framkvæmdastjóri fyrirtækisins Kristinn Árni L. Hróbjartsson, sem missti sjálfur starf sitt.
Alls störfuðu 14 manns hjá fyrirtækinu á Íslandi, en þeim var öllum sagt upp 31. maí. Þau fá greitt uppsagnafrestinn sem er út lok ágústmánaðar.
Framkvæmdastjórinn Kristinn Árni L. Hróbjartsson segir að rannsóknir, þróun og framkvæmd verkefna fyrirtækisins hafi verið kostnarsöm.
„Við erum að rannsaka og þróa nýjar tækniaðferðir og leiðir til þess að staðfesta og greina kolefnisbindingu á hafi, sem er bæði flókið vísindalega og tæknileg,“ segir Kristinn Árni í samtali við mbl.is.
Hvað varðar uppsagnirnar hér landi segir Kristinn að annars vegar sé almennt erfitt fyrir nýsköpunarfyrirtæki að fóta sig í núverandi fjármögnunarumhverfi og bætir við: „Það er mjög erfitt að keppa við 10% stýrivexti“.
Hann segir að síðustu 12-18 mánuði hafi orðið miklar breytingar í fjármögnunarumhverfi nýsköpunarfyrirtækja sem eru að stunda rannsóknir og þróun tengd kolefnisbindingu.
Hin stóra ástæðan sé óvissa á markaði um hver eigi að greiða fyrir kolefnisbindingu.
„Stjórnvöld á heimsvísu eru ekki búin að gefa nógu skýr skilaboð um hver eigi að kaupa kolefnisbindingu í framtíðinni. Eru það fyrirtækin? Er það ríkið?“ spyr Kristinn.
Fjárfestar séu því líklegir til að halda að sér höndum ef þeir vita ekki hver sé að fara að kaupa söluvöru fyrirtækisins fyrr en eftir fjögur til fimm ár.
Kristinn bendir einnig á að nýlega hafi neikvæð umfjöllun um gömul og úreld kolefnisbindingarverkefni haft sitt að segja.
Hvað verður um verkefnin hér á landi?
„Við kláruðum fyrsta fasa af verkefninu seinasta haust sem snerist um að sökkva timburkurli niður í hafið og binda þannig kolefni sem er í timbrinu,“ svarar Kristinn.
Næsta skref hafi verið að rækta þörunga á timbrinu. Innan fyrirtækisins hafi verið mikil þekkingaruppbygging á ræktun á þörungum innanhúss.
Nú sé unnið að því að taka saman allar niðurstöður um aðferðafræði, vísindagreinar og vísindagögn frá fyrirtækinu.
Því verði svo skilað til yfirvalda hér á landi og verður reynt eftir fremsta megni að deila gögnunum með þeim hætti að allir geti notað þau.
„Við erum núna að undirbúa sölu á eignum okkar og aðstöðu. Við vonum að þetta nýtist sem best inn í samfélagið.
Ég myndi helst vilja að það væri hægt að nýta þetta áfram í einhver önnur sambærileg eða ótengd verkefni sem nýta þessa tækniinnviði sem við erum búin að byggja upp.“
Kristinn segir að mikið af gögnum frá fyrirtækinu séu nú þegar aðgengileg á netinu. Meðal eigna sem þarf að selja er rannsóknarstofa fyritækisins á Akranesi.