Segir flokkinn fátækari án Þorbjargar

Helga Vala Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, og Þorbjörg Þorvaldsdóttir, sem …
Helga Vala Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, og Þorbjörg Þorvaldsdóttir, sem tilkynnti í kvöld að hún hygðist segja sig úr þeim sama flokki. Samsett mynd/mbl.is/Eyþór/Aðsend

Helga Vala Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, segir flokkinn vera fátækari án baráttukonunnar Þorbjargar Þorvaldsdóttur.

Þorbjörg tilkynnti í dag að hún hygðist segja sig úr flokknum eftir að þingflokkur Samfylkingarinnar sat hjá í atkvæðagreiðslu um útlendingafrumvarpið sem var samþykkt 14. júní. Hún heldur áfram störfum sínum í bæjarstjórn Garðabæjar.

Grundvallarmálin fokin

„Hvernig sér forysta Samfylkingarinnar fyrir sér að miðla málum í ríkisstjórn þegar öll grundvallarmálin eru fokin áður en í kosningarnar er komið?“ spyr Helga Vala á Facebook.

Hún spyr einnig hvað hafi orðið til þess að þessar breytingar í áherslum flokksins urðu að veruleika.

Þá spyr hún hvort það hafi eitthvað breyst í heiminum sem hafi valdið þessari stefnubreytingu og bætir við að fólk á flótta hafi aldrei verið fleira.

Stríðshrjáðir í minni neyð en áður?

„Er stríðshrjáð fólk, sem leitar verndar á Íslandi í minni neyð en áður? Telur þingfólk sem sat hjá að réttlætanlegt sé að íþyngja Útlendingastofnun með tilhæfulausum umsóknum um endurnýjun dvalarleyfa þegar stríð geisar enn sem fyrr víða um heim svo málin safnast enn hraðar upp á borðum Útlendingastofnunar?

Telur hjásetufólk að fólk sem fengið hefur vernd verði betri borgarar hér á landi með því að fá að bíða í áratug eftir börnum sínum og mökum og var það þess vegna sem það sat hjá í atkvæðagreiðslunni því það gat ekki tekið afstöðu gegn þeirri aðgerð og öllum hinum?“ spyr Helga Vala, en fátt er um svör.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert