Þakkaði Guðna og óskaði Höllu velfarnaðar

Guðni Th. Jóhannesson forseti og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á Austurvelli …
Guðni Th. Jóhannesson forseti og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra á Austurvelli í morgun. mbl.is/Eyþór

„Það þurfti kjark og óbilandi trú á framtíðarmöguleika íslensku þjóðarinnar til að berjast fyrir fullveldinu og stofnun lýðveldis í framhaldinu.“

Þetta sagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra meðal annars í hátíðarræðu sinni í tilefni þjóðhátíðardagsins á Austurvelli í morgun. 

Bjarni flutti ávarp.
Bjarni flutti ávarp. mbl.is/Eyþór

„Það er sannarlega tilefni til að gleðjast á þessum tímamótum þegar við fögnum 80 árum frá stofnun lýðveldisins þann 17. júní 1944, á fæðingardegi Jóns Sigurðssonar,“ sagði Bjarni, sem þakkaði sérstaklega Ingridu Šimonytė, forsætisráðherra Litháens, fyrir að koma til Íslands og fagna deginum enn 33 ár eru liðin frá því Ísland viðurkenndi sjálfstæði Litháen, fyrst allra ríkja.

Bjarni sagði í ræðu sinni að lýðveldissagan hafi einkennst af stórtækum framförum á öllum sviðum. Að drifkraftar framfaranna hafa verið sjálfstæði okar og fullveldi, lýðræðið, frelsi til orðs og æðis, menntun, sjálfbær nýting auðlinda, alþjóðasamvinna og síðast en ekki síst friður í okkar heimalandi.

Í stöðugri sókn til bættra lífskjara

Á þessum grunni hefur íslenska þjóðin verið í stöðugri sókn til bættra lífskjara: Við njótum betri heilsu, hér er meira jafnrétti, meira frelsi á öllum sviðum, okkur hefur fjölgað, atvinnustarfsemin aldrei verið fjölbreyttari og innviðir samfélagsins, efnislegir og félagslegir, eru sterkir. Kaupmáttur landsmanna hefur vaxið mjög ár frá ári,“ sagði Bjarni.

Hann sagði að lýðveldisstofnunin hafi átt rætur sínar í þeirri hugsjón að íslensk þjóð myndi farnast best með því að taka í eigin hendur fulla ábyrgð á landsmálunum.

Um fullveldið var samið á friðsaman hátt og án átaka. Íbúafjöldi Danmerkur var um 35-faldur á við Íslendinga er sambandslagasamningurinn var gerður 1918. Á mælikvarða gildismats og hugsjóna sýndi Danmörk með samningnum stærð sem mun fjölmennari og landmeiri ríki eru fram á þennan dag ófær um,“ sagði Bjarni.

Gestir á hátíðarhöldunum.
Gestir á hátíðarhöldunum. mbl.is/Eyþór

Vaxandi áhyggjur af lýðræðinu

„Í okkar heimshluta eru vaxandi áhyggjur af lýðræðinu, neikvæðum áhrifum samfélagsmiðla, teikn eru um aukna skautun, netárásir og undirróðursöfl láta til sín taka, sem skeyta engu um framtíð landsmanna. Hraði í samskiptum hefur aukist með eindæmum og athyglin styst að sama marki.“

Forsætisráðherrann sagði að upphrópanir og skilaboð í stuttum myndskeiðum séu allsráðandi en þau rúmi ekki dýpt flóknari mála. 

Falsfréttir flæða um netheima í harðri samkeppni við sannleikann og oft skortir gagnrýna hugsun til að greina þar á milli. Málefnaleg umræða sem er lýðræðinu nauðsynleg á víða í vök að verjast. Og við skulum vera minnug þess að gæði skoðanaskipta og gæði ákvarðana, þjóðinni til heilla, haldast iðulega í hendur.

Bjarni sagði að lýðræðið sé sverð okkar og skjöldur gegn hvers konar ytri og innri ógn. Fjöregg þjóðarinnar.

„Tökum höndum saman um að viðhalda og verja ávallt getuna til að skiptast á skoðunum á opinn og hreinskiptinn hátt. Gætum þess einnig að láta ekki ólík viðhorf og nýjar áskoranir jafnvel draga úr okkur kjarkinn til frjálsra skoðanaskipta og til að taka ákvarðanir fyrir framtíðina,“ sagði Bjarni.

Kjörsókn ánægjuleg

Bjarni þakkaði Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, þakkir fyrir störf í þágu lands og þjóðar og óskaði Höllu Tómasdóttur velfarnaðar en hún tekur við forsetaembættinu af Guðna þann 1. ágúst.

Með okkur situr nú hæstvirtur sjötti forseti Íslands sem senn lætur af störfum og ég vil nota tækifærið og færa honum bestu þakkir fyrir störf í þágu lands og þjóðar. Í sumar tekur við sjöundi forseti lýðveldisins, Halla Tómasdóttir, og við óskum henni öll velfarnaðar. Það var ánægjulegt að sjá ríka þátttöku í nýafstöðnum forsetakosningum, en hún er sannur mælikvarði á styrk lýðræðisins og vilja til þátttöku.“

Í lok ræðu sinnar sagði Bjarni;

„Það fyllir okkur stolti að líta um farinn veg, huga að öllu því sem þjóðin hefur áorkað á 80 árum. Við skulum gleðjast og við skulum fagna. Á morgun heldur starf okkar allra áfram við að gera enn betur fyrir framtíðarkynslóðir. Ég óska okkur öllum til hamingju með 80 ára afmælið.“

mbl.is/Eyþór
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert