„Jæja, stelpur, núna eigið þið að taka við“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, hélt ávarp við athöfnina.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, hélt ávarp við athöfnina. mbl.is/Árni Sæberg

Í dag eru 109 ár síðan konur fengu kosningarétt á Íslandi. Af því tilefni var blómsveigur lagður á leiði Bríetar Bjarnhéðinsdóttur við hátíðlega athöfn í Hólavallagarði í morgun. 

Bríet var baráttukona fyrir réttindum kvenna og var fyrst kvenna til að bjóða sig fram til Alþingis. Hún stofnaði meðal annars Kvennablaðið og var forsprakki Kvenréttindafélags Íslands.

Gestir gerðu sér ferð í garðinn þrátt fyrir rignunguna.
Gestir gerðu sér ferð í garðinn þrátt fyrir rignunguna. mbl.is/Árni Sæberg

Ný kynslóð taki við kyndlinum

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, hélt ávarp ásamt því að frænkur hennar Álfrún Hanna Gissurardóttir og Lóa Björk Gissurardóttir lögðu blómsveiginn. Þórdís Petra Ólafsdóttir söng nokkur lög við athöfnina. 

Í ávarpinu vék Þórdís máli sínu að kynslóðaskiptum í jafnréttisbaráttunni. Hverri kynslóð mæti nýjar áskoranir í jafnréttismálum, nýjar bylgjur fordóma og nýtt bakslag sem vinna þurfi bug á.

Tók hún fram að hún hefði áhyggjur af bakslagi í jafnréttisbaráttunni, en í samtali við mbl.is segir hún að það sé táknrænt að fá ungu kynslóðina til að taka þátt í athöfninni.

„Í rauninni er ég að segja við þær: Jæja, stelpur, núna eigið þið að taka við,“ segir Þórdís og hlær.

Bakslag í jafnréttisbaráttunni

Spurð um bakslagið nefnir hún sérstaklega nýafstaðnar forsetakosningar þar sem komið hafi henni spánskt fyrir sjónir hvers konar spurningar forsetaframbjóðandinn Baldur Þórhallsson fékk.

Segir hún þær minna á spurningar sem Vigdís Finnbogadóttir fékk þegar hún fór fyrst kvenna í forsetaframboð árið 1980.

„Baldur Þórhallsson [...] fékk afar miðaldalegar spurningar um fjölskyldu og hjónaband sitt, bara því hann var hinsegin,“ sagði Þórdís í ávarpi sínu. 

Spurð af hverju hún telji bakslagið stafa segir hún að það sé meðal annars vegna skautunar sem eigi sér stað um allan heim. Óhjákvæmilega muni hennar einnig verða vart hér á landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert