„Ég ætla að verða íslenskur ríkisborgari“

Jónína Shipp (til hægri) ásamt börnum sínum og barnabörnum.
Jónína Shipp (til hægri) ásamt börnum sínum og barnabörnum. Ljósmynd/Aðsend

Jónína Shipp fæddist á Íslandi fyrir 65 árum. Það kom henni og fjölskyldu hennar spánskt fyrir sjónir þegar hún sótti um íslenskt vegabréf þegar hún var 17 ára gömul og kom þá í ljós að hún væri ekki með íslenskan ríkisborgararétt. 

Móðir Jónínu er íslensk en faðir hennar frá Bandaríkjunum. Hún segir í samtali við mbl.is að það hafi komið allri fjölskyldunni í opna skjöldu þegar þeim var tilkynnt að hún væri bandarískur ríkisborgari en ekki íslenskur, þrátt fyrir að vera fædd hérlendis og með íslenska kennitölu og nafnnúmer. 

Í gær greindi mbl.is frá því að Robert Scobie, maður sem fæddist á Íslandi og hefur búið hér og starfað nær alla sína ævi, hefði ekki fengið íslenskt ríkisfang þegar hann sótti nýlega um það.

Sögur Jónínu og Róberts minna óneitanlega hvor á aðra á köflum. 

Ekki vandamál fyrr en með Schengen

Hún segir að það hafi ekki verið neitt vandamál að vera aðeins með bandarískt vegabréf þegar hún ferðaðist á milli landa fyrr en Ísland fékk aðild að Schengen-svæðinu. Þá hafi hún verið stoppuð á flugvöllum og beðin um vegabréfsáritun, sem er oft kölluð VISA.  

„Ég var svo græn að ég bara rétti honum VISA-kortið,“ segir Jónína og hlær. 

Hún segir það vekja upp spurningar hvernig það gerist að einstaklingur sem er fæddur á Íslandi, með íslenskt nafnnúmer, íslenska kennitölu og íslenska móður er samt ekki íslenskur ríkisborgari.

Bent á að sækja um dvalarleyfi

Jónína hafði samband við Útlendingastofnun þegar það fór að verða vandamál að vera ekki með íslenskt ríkisfang eða vegabréf þegar hún ferðaðist á milli landa. 

Þá var henni tilkynnt að faðir hennar hefði farið og látið skrá hana sem bandarískan ríkisborgara þegar hún var nýfædd. Jónínu finnst það ótrúverðugt og spyr hvort það hefði ekki þurft undirritað leyfi frá móður hennar til að gera slíkt. 

Lögfræðingur hjá Útlendingastofnun benti henni á í kjölfarið að sækja um ótímabundið dvalarleyfi sem hún svo gerði, en komst síðar að því að hún þarf að endurnýja það á fimm ára fresti ásamt því að það er háð því að hún sé gift íslenskum manni. 

„Mér finnst þetta bara algjört bull.“

Ekki með kosningarétt

Jónína er ekki með kosningarétt til Alþingis eða forseta en dreymir um að geta hagað lífi sínu eins og hefðbundinn Íslendingur. 

„Ég ætla að verða íslenskur ríkisborgari,“ segir Jónína að lokum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka