Samfylkingin hlyti flest atkvæði ef gengið yrði til Alþingiskosninga í dag en Sjálfstæðisflokkurinn missir tæplega 3 prósentustig frá síðustu mælingu. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu á fylgi flokka á Alþingi.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 15% fylgi en Sósíalistaflokkurinn er hástökkvarinn og bætir við sig tveimur prósentstigum og kæmi manni á þing. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna er 30%.
Fylgi Samfylkingarinnar mælist 27% þriðja mánuðinn i í röð og er með næstum tvöfalt meira fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn sem mælist með 15%. Marktækur munur er á fylgi Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins sextánda mánuðinn í röð.
Miðflokkurinn mælist með 12,7% fylgi, Framsóknarflokkurinn 10,2%, Viðreisn 10,1%, Píratar 9,3% og Sósíalistaflokkurinn 5,9%. Flokkur fólksins og Vinstri grænir mælast með jafnmikið fylgi eða 5%.
Könnunin fór fram dagana 31. maí til 20. júní og voru 1.846 svarendur sem tóku afstöðu til þess hvaða flokk þeir myndu kjósa.