Mannskætt veður og lítið skárra framundan

Úrhellisrigning og aurskriður hafa valdið manntjóni í Sviss.
Úrhellisrigning og aurskriður hafa valdið manntjóni í Sviss. AFP

Úrhellisrigning, stormur og aurskriður hafa leikið íbúa í Sviss grátt síðustu daga og vikur og aðra helgina í röð varð mannskaði af völdum veðursins.

Um nýliðna helgi fórust fjórir vegna veðursins í Sviss. Þrír létust eftir að úrhellisrigning olli aurskriðu í kantónunni Ticini í svissnesku ölpunum og þá fannst einn látinn á hótelherbergi í kantónunni Valais eftir að flæddi inn á herbergið. Ekki er útilokað að fleiri hafi farist.

Hjördís Árnadóttir hefur verið búsett í Sviss í 14 ár og hún segist ekki muna eftir svona veðurlagi frá því hún flutti út.

Treystu sér ekki til að staðsetja veðrið

„Spáin fyrir nýliðna helgi var mjög slæm og veðurfræðingar treystu sér ekki til að staðsetja veðrið. Það var gul veðurviðvörun þar sem ég bý í Zug en það voru appelsínugular og rauðar viðvaranir víðs vegar um landið.

Einhverra hluta vegna hefur þetta veður hitt á helgarnar sem hefur ekki alveg verið að slá í gegn hjá fólki,“ segir Hjördís við mbl.is.

Hjördís Árnadóttir hefur verið búsett í Sviss í 14 ár.
Hjördís Árnadóttir hefur verið búsett í Sviss í 14 ár. mbl.is

Hjördís segir að um nýliðna helgi og helgina þar á undan hafi verið gríðarleg úrkoma á stuttum tíma. Í Misox, Maggia-dal og Saas Grund kom mánaðarúrkoman á einu bretti á fáeinum klukkutímum, yfir 200 millimetrar.

Hún segir að vegir séu sumstaðar stórskemmdir og það sé ljóst að það reyni á innviði landsins þessa dagana. Þeir séu hins vegar sterkir en yfirvöld hafi lýst yfir áhyggjum á síendurteknu óveðri. Að sögn Hjördísar er áframhaldandi rigningarspá og það stefni í óveður aftur um næstu helgi.

„Ég er búsett rétt fyrir norðan alpana og í kringum þá er alvanalegt að það skelli á þrumuveður seinni part dags yfir sumarið. En nú hefur rignt mikið og í langan tíma sem er óvenjulegt.

Ég var að kíkja á langtímaspána og það á að vera rigning nánast upp á hvern dag næstu tvær vikurnar. Þetta er svo óvenjulegt og fólk er að farast í skriðuföllum helgi eftir helgi.“

Aðdáandasvæði blásið af vegna veðursins

Vegna veðursins þurfti að aflýsa viðburðum í Genf og á fleiri stöðum þar sem fólk ætlaði að koma saman og fylgjast með viðureign Sviss og Ítalíu í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í knattspyrnu á laugardaginn, þar sem Svisslendingar gerðu sér lítið fyrir og slógu ríkjandi Evrópumeistara Ítalíu úr leik.

„Yfirvöld á mörgum stöðum í landinu bönnuðu þessar samkomur því spáin var það slæm,“ segir Hjördís.

Hætt er við að aflýsa þurfi fleiri viðburðum á einhverjum stöðum á laugardaginn en þá mæta Svisslendingar liði Englendinga í átta liða úrslitum Evrópumótsins.

„Miðað við veðurspána má fastlega búast við því að felld verði niður leyfi fyrir „fan-zonin“ á einhverjum stöðum sem fólki þykir mjög miður því það er gríðarleg spenna og eftirvænting í loftinu.

Það eru allir í skýjunum yfir frammistöðu svissneska liðsins og Svisslendingar láta sér dreyma um að þeir komist í úrslitaleikinn þótt enginn þori að segja það upphátt,“ segir Hjördís, sem á árum áður starfaði sem íþróttafréttamaður á RÚV.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert