Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við mbl.is, að nýjasta skoðanakönnun Maskínu sé vísbending fyrir flokkinn til þess að líta inn á við og setja aukinn kraft í hægristefnuna.
Í umræddri könnun mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 15% fylgi. Þegar blaðamaður mbl.is ræddi við Áslaugu Örnu höfðu niðurstöður nýjustu könnunar Gallup ekki verið birtar, en Sjálfstæðisflokkurinn mældist þar með 18,5% fylgi.
„Það er krafa um að við náum meiri árangri og ég held að við eigum að gera það á grundvelli okkar stefnu, sem er mjög skýr og á að ná til fleira fólks en þessar mælingar sýna,“ segir Áslaug Arna um könnun Maskínu.
Hún segir stöðuna óásættanlega og að hún hafi viðrað áhyggjur sínar um fylgi flokksins við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins.
Hún segir að einhverju leyti hafi flokkurinn fórnað of miklu í samstarfi við flokka sem séu á öndverðum meiði í pólitík og að ríkisstjórnarsamstarfið hafi haft það að verkum að þau hafi ekki komist eins langt til hægri og þau hefðu viljað.
Þá nefnir hún sérstaklega tíma kórónuveirufaraldursins þar sem hún segir að flokkurinn hafi fórnað miklu frelsi fólks og þar að leiðandi auknum fjármunum.
Hún segir þó þróunina vera á þá leið að ríkisstjórnarsamstarfið hafi reynst erfitt fyrir alla flokka, ef marka má skoðanakannanir.
Hún fagnar því þó að fólk sé að vakna til lífsins í útlendingamálunum.
„Staðan er líka þannig núna að fólk hefur vaknað til lífsins gagnvart þeim vanda sem ég benti ítrekað á sem dómsmálaráðherra um stöðuna útlendingamálum.
Þegar nánast enginn flokkur studdi það sérstaklega að þau frumvörp mín náðu fram að ganga. Þau hafa nú farið í gegnum þingið, það er árangur," segir Áslaug að lokum.