Efnahags- og viðskiptanefnd bíður nú svara úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu varðandi lagabreytingu er snýr að niðurfellingu persónuafsláttar eftirlauna- og lífeyrisþega sem búa erlendis. Teitur Björn Einarsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, segir nefndina hafa lagt fram spurningar er varða hugsanleg fjárhagsleg áhrif af lagabreytingunni og eins hve stór hópur falli undir hana.
Samkvæmt upplýsingum úr fjármála- og efnahagsráðuneytinu njóta eftirlauna- og lífeyrisþegar nú þegar tvöfaldra ívilnana með persónuafslætti í búseturíki erlendis eða frá Íslandi, komi meirihluti teknanna héðan. Það skýri umrædda lagabreytingu.
Í stórum dráttum fylgir skattskylda búsetu einstaklinga. „Með persónuafslætti er leitast við að tryggja að maður fái ákveðna lágmarksfjárhæð skattfrjálsa og er sú fjárhæð almennt ákveðin og veitt af því ríki þar sem viðkomandi er búsettur,“ segir Teitur. Það sé m.a. vegna þess að búseturíkið sé eitt með yfirsýn yfir heildartekjur skattgreiðandans og að útgjöld hans falli að jafnaði til í því ríki. Búseturíkið sé betur í stakk búið til að meta getu skattaðilans til að greiða skatta.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.