„Það var búið að kalla lengi eftir því að sameina stofnanir hins opinbera til þess að efla þær og styrkja og ná betri nýtingu fjármuna,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Í vor voru samþykkt lög um sameiningu stofnana sem taka gildi 1. janúar 2025. Umhverfis- og orkustofnun tekur við starfsemi Orkustofnunar og hluta af starfsemi Umhverfsisstofnunar, en Náttúruverndarstofnun tekur við Vatnajökulsþjóðgarði og starfsemi náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar.
Áður höfðu Landmælingar Íslands og Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn orðið hluti af Náttúrufræðistofnun Íslands, sem við breytingarnar fékk heitið Náttúrufræðistofnun.
Þá verður aðsetur forstjóra ofantalinna stofnana flutt af höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina.
Guðlaugur segir að stofnunum er heyra undir ráðuneytið hafi fækkað úr 13 í 9 og að vinnan við hagræðinguna hafi staðið yfir í nokkurn tíma. Eðlilegur hluti ferlisins sé að fækka stöðum forstöðumanna og auglýsa eftir nýjum.
Þessar breytingar eru einnig hluti af aukningu starfstækifæra á landsbyggðinni en það sé eitthvað sem gerist í skrefum, að sögn Guðlaugs. Núverandi starfsmenn þurfi ekki að flytja sig um set. Hins vegar verður auglýst eftir nýju fólki á landsbyggðinni, komi stöður til með að losna.