Gervigreind verði hluti af blaðamennsku

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands. Ljósmynd/Aðsend

„Þegar kemur að gervigreind þá þurfum við að stíga mjög varlega til jarðar,“ segir Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands.

Ríkisútvarpið hóf nýverið að birta fréttir þýddar af gervigreind undir merkjunum Evrópskt sjónarhorn.

Í samtali við mbl.is segir Sigríður Dögg áhyggjur í tengslum við gervigreind og blaðamennsku ekki beint eiga þar við því munurinn liggi einmitt í því að hún sé þar notuð til þýðingar en ekki skrifa. 

Ekki það sama að þýða og skrifa

Greinarnar eru hluti af samstarfi á vegum Eurovision við 19 aðra miðla í 17 löndum. Er tilgangur verkefnisins að gera greinarnar aðgengilegar lesendum erlendis og sér gervigreindin því um þýðingarstörf en ekki bein skrif.

Fréttin sé því birt í nafni þess sem skrifar hana og á að vera efnislega óbreytt. Blaðamenn Ríkisútvarpsins fari sömuleiðis yfir málfar áður en hún er birt. 

„Þá leikur enginn vafi á hvort verið sé að brjóta gegn einhverjum höfundarrétti því þá er algjörlega klárt hver á hugmyndirnar og sé búinn að veita leyfi fyrir þessari notkun,“ segir Sigríður.

„En ef við tölum um gervigreind og blaðamennsku í stærra samhengi þá er það sannarlega vettvangur og tækni sem við þurfum stöðugt að hafa augun á,“ bætir hún við. 

Getur auðveldað tímafrek verk

Hún segir marga fjölmiðla á Norðurlöndunum þegar vera byrjaða að nýta gervigreind við vinnslu frétta en að íslenskir fjölmiðlar séu almennt ekki komnir jafn langt í þeim efnum.

BÍ hafi haldið vinnustofu um notkun gervigreindar í blaðamennsku og að hennar mati gæti slík vinnustofa þurft að verða að árlegum viðburði í ljósi þess hver hratt tæknin sé að þróast. 

„Kosturinn við þetta er að það er mjög auðvelt að láta gervigreind vinna fyrir sig verk sem eru svona handavinna,“ segir Sigríður. 

Nefnir hún sem dæmi tímafrek verkefni sem ekki þarfnist mikillar hæfni, eins og að rita upp viðtal, hlusta eftir lykilhugtökum í ræðum og skrifa upp úr fréttatilkynningum.

„Þannig ef að okkur tekst með góðum hætti að nýta þessa hlið gervigreindarinnar þá getur það orðið til þess að blaðamenn geti farið að vinna meiri blaðamennsku vegna þess að þeim gefst betri tími til þess.“

Hvernig fáum við gervigreind til að fara að siðareglum?

Hún segir þó mikilvægt að gæta að „myrku hliðum“ gervigreindarinnar. Til að mynda sé mikilvægt að gera kröfu um að ávalt sé skýrt hvaðan upplýsingar komi til að koma í veg fyrir falsfréttir og annað slíkt.

„Gervigreindin hefur enga greind sjálf, hún vinnur allar sínar upplýsingar upp úr einhverju sem aðrir hafa unnið, þar á meðal blaðamenn.“

Ábyrgð tiltekins miðils á frétt sem gervigreind vinni sé jafn mikil og þegar blaðamaður á í hlut og miðlar sem noti slíka greind við vinnslu frétta þurfi að gæta að því hvaðan hún fái sínar upplýsingar og að það brjóti ekki á höfundarrétti annarra. 

„Þetta verður hluti af blaðamennsku. Þá er bara spurning hvernig við getum tryggt að gervigreindin fari að siðareglum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert