Segir samkeppnina frá útlöndum mikla

Höfuðstöðvar Kaupfélags Skagfirðinga eru á Sauðárkróki.
Höfuðstöðvar Kaupfélags Skagfirðinga eru á Sauðárkróki. mbl.is/Sigurður Bogi

Kjarnafæði Norðlenska hefur á undanförnum vikum átt í viðræðum við fjárfesta um að auka hlutafé félagsins. Rekstur félagsins gekk vel í fyrra, en fjármagnskostnaður þess var þungur sökum mikilla skulda. Viðræðurnar enduðu þó með því að Kaupfélag Skagfirðinga (KS) festi kaup á öllu hlutafé félagsins sl. föstudag. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er kaupverðið um 2,5 milljarðar króna.

Kaupin eru ekki háð samþykki Samkeppniseftirlitsins, þar sem nýleg breyting á búvörulögum veitir afurðastöðvum undanþágu frá samkeppnislögum. Deilt var um lagasetninguna á meðan málið var til meðferðar á Alþingi í vetur, en hagsmunasamtök í verslun og þjónustu voru þau sem helst deildu á breytingarnar.

Kaupin eru aftur á móti háð samþykki hluthafa. Nú þegar liggur fyrir að bræðurnir Eiður og Hreinn Gunnlaugssynir, sem eiga um 56% hlut í Kjarnafæði Norðlenska, munu selja sinn hlut. Eiður segir í samtali við Morgunblaðið í dag að þeir bræður séu komnir á aldur.

Búsæld, sem er í eigu um 500 bænda, á 43% hlut í félaginu en þar mun hver og einn hluthafi taka ákvörðun. Einn þeirra er Þórarinn Ingi Pétursson, formaður atvinnuveganefndar Alþingis og þingmaður Framsóknarflokksins. Hann átti fund með þeim Eiði og Hreini sl. föstudag áður en tilkynnt var um kaupin.

Sigurjón Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri KS, segir í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag að viðskiptin feli í sér tækifæri til að gera betur fyrir íslenska bændur og neytendur. Hann bendir á að íslenskur landbúnaður eigi í samkeppni við innfluttar landbúnaðarafurðir sem séu verulega niðurgreiddar og framleiddar hjá erlendum risafyrirtækjum þar sem framleiðslutækin eru nýtt allan sólarhringinn alla daga ársins.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert