Algert heitavatnsleysi ólíklegt þótt gjósi hjá Hellisheiði

Háhitakerfi á Nesjavöllum, Hellisheiði og Hverahlíð skaffa um helminginn af …
Háhitakerfi á Nesjavöllum, Hellisheiði og Hverahlíð skaffa um helminginn af vatninu í hitaveitunni á höfuðborgarsvæðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Algert heitavatnsleysi á höfuðborgarsvæðinu er ólíklegt ef eldgos yrði nærri Hellisheiðarvirkjun. 

Í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis,- orku,- og loftslagsráðherra, að ráðuneytið sé upplýst um sérstakar áætlanir Orkuveitunnar um forgangsröðun og viðbragð fyrir rof eða takmörkun á afhendingu hita og rafmagns.

Spurningin laut að fyrirspurn þingmanns Framsóknarflokksins, Hafdísar Hrannar Hafsteinsdóttur, sem beindi fyrirspurn sinni að dómsmálaráðherra um hvernig tryggt yrði að vatn bærist til höfuðborgarsvæðisins ef kvikumyndun eða eldgos yrði nærri Hellisheiðarvirkjun sem sér höfuðborgarsvæðinu fyrir orku og heitu vatni. 

Vísaði dómsmálaráðherra fyrirspurninni til umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytisins. 

800 milljónir í áhættugreiningu

Umhverfisráðherra bendir einnig á að ráðuneyti hans hafi sett 800 milljónir króna í umfangsmikið verkefni undir Veðurstofu Íslands sem vinnur að áhættugreiningu á svæði sem nær yfir sex eldstöðvakerfi, þar á meðal Hengilssvæðið.

Niðurstöður verkefnisins muni leggja grunninn að mikilvægum ákvörðunartökum um mótvægisaðgerðir líkt og uppbyggingu varnagarða, varaleiðir fyrir línulega innviði og viðbragsáætlanir. Gera áætlanir ráð fyrir að verklok verði í byrjun árs 2026. 

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur sett 800 millljónir í áhættugreiningu …
Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið hefur sett 800 millljónir í áhættugreiningu á svæði sem nær yfir sex eldstöðvakerfi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Orka höfuðborgarsvæðisins á við tvær Kárahnjúkavirkjanir

Segir á upplýsingavef Orkuveitunnar, sem umhverfisráðherra vísar til, að höfuðborgarsvæðið sæki heitavatn sitt úr sex mismunandi jarðhitakerfum.

Þrjú þeirra, háhitasvæðin Nesjavellir, Hellisheiði og Hverahlíð, séu á Hengilssvæðinu og skaffi um helminginn af vatninu í hitaveitunni á höfuðborgarsvæðinu. Hinn helmingurinn sé fenginn úr kerfum á lághitasvæðum innan höfuðborgarsvæðisins sjálfs. 

Samanlögð orka kerfana á höfuðborgarsvæðinu nálgist tvær Kárahnjúkavirkjanir. Heitavatnsframleiðsla fyrir höfuðborgarsvæðið hvíli því á mörgum stoðum og ólíklegt að þær verði allar fyrir áföllum á sama tíma.

Loftmynd úr safni af Hengilssvæðinu.
Loftmynd úr safni af Hengilssvæðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Raforka til heimila ávallt í forgangi

Kæmi engu að síður til þess að hluti heitavatnsframleiðslu Veitna fyrir höfuðborgarsvæðið yrði óvirkur vegna eldsumbrota telur Orkuveitan líklegt að það myndi einungis hafa áhrif á innan við helming framleiðslunnar á hverjum tíma.

Ætti slíkur atburður sér stað um hávetur væri líklegt að fólk myndi finna fyrir afhendingarskorti, en þess gætt að heitu vatni yrði dreift jafnt um höfuðborgarsvæðið.

Hvað rafmagn varði sé höfuðborgarsvæðið vel tengt við flutningskerfi rafmagns. Ef háspennulínur á Hellisheiði féllu úr rekstri myndu Suðurnesjalína og tengivirkið á Brennimel í Hvalfirði fæða höfuðborgarsvæðið. Raforka til heimila yrði alltaf í forgangi í slíkum aðstæðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka