Lára Bryndís Eggertsdóttir organisti var að synda Fossvogssundið þegar æðakerfið hennar fór yfir um og byrjað að seyta vökva í lungu hennar.
Ástandið er sjaldgæft en lífshættulegt og vill Lára vekja athygli á því:
„Það er talið að það séu mörg dauðsföll sem megi rekja til þessa ástands, sem eru skrifuð á drukknun,“ segir Lára.
Lára synti Fossvogssundið síðasta sumar og hefur stundað sjósund með reglulegu millibili síðan, þar á meðal Viðeyjarsundið:
„Þetta er vegalengd sem ég hef synt oft og aðstæður sem skrokkurinn minn hefur margoft verið sáttur við.“
Hún segir að í fyrstu hafi allt farið fram með eðlilegum hætti, en þegar hún var búin að synda fjögur hundruð metra byrjaði hún að dragast aftur úr hópnum.
„Öndunin verður grunsamleg, ég verð þreyttari en ég ætti að vera og svo byrja ég að hósta. Byrja að hósta upp úr mér vökva.“
Láru þótti hóstinn skrítinn í ljósi þess að henni hafði ekki svelgst á. Hún náði þó að halda dampi þar til einkennin versnuðu um of.
„Ég gerði mér engan veginn grein fyrir því að þetta gæti verið eitthvað annað en óvenjulélegt dagsform,“ segir hún og bætir við að hún hefði farið í langa göngu einhverjum dögum fyrir sundið.
Annar þátttakandi í sjósundinu varð var við ástandið og spurði Láru hvort hún vilji ekki láta taka sig upp í bát. Lára neitaði í fyrstu en gerði sér svo grein fyrir að ástandið væri of alvarlegt til að halda áfram.
Lára var tekin um borð í bát sem flutti hana í land en einkennin héldu áfram að gera vart við sig: „Ég geri mér samt áfram ekkert grein fyrir því að þetta sé eitthvað annað en bara slæmur dagur.“
Lára hélt áfram að hósta, fékk sér að drekka og borða, og dreif sig í sturtu. Fljótlega tók hún eftir hverju hún var að hósta upp:
„Þetta var svona bleikt kurl sem kemur upp úr mér. Þá fyrst hringja viðvörunarbjöllurnar um að þetta væri ekki í lagi,“ segir hún og heldur áfram:
„Ég var svolítið skelkuð þegar ég sé að það er blóðlitur á þessu.“
Á sama tíma byrjaði hún að finna fyrir einhverju gutlandi inni í líkamanum.
Heppilega vildi til að einhverjir á svæðinu könnuðust við einkennin og sögðu henni að mögulega væri um SIPE eða „swimming induced pulmonary edema“ að ræða – en þýða mætti það sem lungnabjúg af völdum sunds.
Var henni þá sagt að drífa sig upp á bráðamóttökuna.
Hún hringdi í eiginmann sinn sem er læknir og varð honum brugðið yfir lýsingunum.
„Ég varð fyrst skelkuð yfir því hvað maðurinn minn hafði miklar áhyggjur. Hann er alls ekki líklegur til þess að verða eitthvað hysterískur yfir einhverju smotteríi.“
Á bráðamóttökunni voru áhyggjur Láru staðfestar. Einkennin voru vegna SIPE sem læknarnir sögðu að væri sjaldgæft ástand.
Hvað veldur SIPE er ekki vitað með vissu, en Lára segir að samverkandi þættir hafi orsakað hennar einkenni sem tengjast einna helst langsundi í köldu vatni.
Hafði þannig æðakerfi Láru farið yfir um og byrjað að seyta vökva inn í lungu hennar.
Lára var þó að heppin að því leytinu til að hún þurfti ekki á súrefni eða lyfjagjöf að halda. Við tók þó langt ferli þar sem hún þurfti að bíða einkennin af sér.
„Ég gat ekki lagst niður en þá var bara eins og ég væri full af vatni,“ segir hún.
Var Láru komið fyrir í hægindastól yfir nóttina og segir hún einkennin hafa skánað.
Í kjölfar fékk hún að fara heim til sín en henni leið enn mjög illa og gat ekki lagst niður. Sem betur fer var stillanlegur rúmgafl heima hjá henni og sólahring síðar gat hún loksins lagst niður.
Einkennin voru þó ekki á braut heldur upplifði Lára ofsaþreytu dagana eftir.
„Ég hef aldrei sofið eins mikið,“ segir hún og bætir við að það hafi ekki verið fyrr en á níunda degi sem hún vaknaði ágætlega hress.
„Úr því þetta kom fyrir núna er komið í ljós að ég er ein af þessum frekar fáu sem af einhverjum óútskýrðum ástæðum eru viðkvæmir fyrir þessu,“ segir Lára og útskýrir að þeir sem hafi greinst einu sinni með SIPE séu líklegri til að fá einkennin aftur:
„Ég veit ekki enn þá hvort ég geti synt sjósund án þess að vera í hættu.“
Ekki fundust undirliggjandi skýringar á því af hverju Lára greindist með SIPE. Hefur hún bæði farið í lungnamyndatöku og sótt hjartalækni.
Þannig að þetta var bara gífurleg óheppni?
„Já, það er í sjálfu sér engin önnur skárri skýring en það,“ segir hún og bætir við að ofreynsla geti ekki verið útskýringin þar sem hún leggi áherslu á að synda hægar svo hún geti synt lengur.
„Ég er alveg meðvituð um það að ef ég ætla klára kílómetra sund, þá er ég ekki að fara taka einhvern sprett,“ segir hún og bendir á að henni hafi þótt lítið mál að synda sömu vegalengd fyrir ári.
„Þetta er svo lítið þekkt og lítið rannsakað að sumt reynt sjósundsfólk hefur aldrei heyrt um þetta,“ segir Lára. Vill hún vekja athygli á SIPE svo fólk geti brugðist rétt við einkennunum. Hún sér sjálf eftir að hafa ekki verið meðvituð um SIPE fyrr en hún lenti í þessari lífsreynslu.
„Auðvitað fer maður ekki einn út að synda, en ég hef aldrei séð fyrir mér aðra hættu en að ég örmagnist eða svelgist á og svoleiðis, en þetta kom svo gjörsamlega aftan að mér,“ segir hún og heldur áfram:
„Það er það sem stuðar mig, að ég hafi ekki vitað af þessu og getað brugðist við. Hefði ég þekkt einkennin hefði ég hið minnsta trúað því að ég þyrfti að hætta strax og þetta hefði ekki gengið svona langt og ég ónýt svona lengi.“
Hún segir að lokum að hún vilji ekki mála skrattann á vegginn fyrir þá sem vilja prófa sjósund:
„Þetta er auðvitað mjög sjaldgæft en það er mikilvægt að fólk heyri um þetta svo það hafi sjálft hugmynd um það ef það eða sundfélagi fer að sýna einkenni.“