Vísbendingar um kólnun í hagkerfinu

Selfoss, skip Eimskips, og skemmtiferðrskipið Viking Mars frá Bergen í …
Selfoss, skip Eimskips, og skemmtiferðrskipið Viking Mars frá Bergen í blíðunni síðasta sunnudag. mbl.is/Baldur Arnarson

 

Greining Analytica á tölum Hagstofunnar um veltu í stórum atvinnugreinum bendir til lítils hagvaxtar á síðari hluta ársins, jafnvel samdráttar.

Yngvi Harðarson, hagfræðingur og framkvæmdastjóri Analytica, segir merki um að hægt hafi á hagkerfinu.

„Ég dreg þá ályktun af tölunum að það sé heldur að hægja á hagkerfinu og stefni jafnvel í samdrátt. Ef það verður hagvöxtur í ár verður hann að óbreyttu mjög lítill. Ef raunin verður samdráttur þá nær hann hugsanlega inn á næsta ár. Þetta er í takt við þær vísbendingar sem leiðandi hagvísir Analytica hefur gefið undanfarna mánuði,“ segir Yngvi.

Meðal stórra atvinnugreina þar sem dregið hefur úr veltu er álframleiðsla. Samtök iðnaðarins fjalla um það í nýrri greiningu sem nær einnig til kísiljárns. Þá birtist samdráttur í ferðaþjónustu í færri ferðamönnum í júní en í sama mánuði í fyrra.

„Svo virðist ferðaþjónustan vera að að gefa eftir líka. Það birtist ekki í þessum virðisaukaskattstölum en ef tölur um gistinætur eru að gefa rétta mynd er ferðaþjónustan líka að gefa eftir,“ segir Yngvi.

Aðra vísbendingu um þennan samdrátt er hugsanlega að finna í auknu atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara, líkt og fjallað var um í Morgunblaðinu í gær, þ.e. að atvinnulausum einstaklingum frá Póllandi, Litáen, Rúmeníu, Lettlandi og Úkraínu hefur fjölgað milli ára en fólk frá þessum löndum er fjölmennast á atvinnuleysisskrá.

Hluti af hagsveiflunni

Yngvi segir að sagan bendi til að væntanlega sé uppsveifla fram undan í kjölfar þessarar aðlögunar.

„Þetta er öldudans. Við erum að síga niður í hagsveiflunni og þá má búast við að hagvöxtur glæðist ef maður horfir til lengri tíma,“ segir Yngvi sem telur að vaxtalækkanir kunni að örva hagvöxt á næsta ári. Nánar er fjallað um greiningu Analytica í blaðinu í dag.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert