„Maður sér að efnishyggjan hefur tekið yfir, það vantar hina andlegu vídd í það sem byggt er í dag,” segir arkitektinn Pétur H. Ármannsson.
Hann segir að í gömlu Þingholtunum og Skólavörðuholtinu sé hinn mannlegi mælikvarði einkennandi og hann sé lykilatriði. „Ef við glötum honum þá höfum við misst mikið. Þótt miklu hafi verið kostað til við nýju húsin við gömlu höfnina og norðurströnd Reykjavíkur þá finnur maður þar ekki hinn smágerða, mannlega skala. Það er miður,“ segir Pétur.
Hann segir einnig: „Helsta viðfangsefni arkitekta í gegnum aldirnar var að teikna byggingar sem á einhvern hátt endurspegluðu táknfræði og háleitar hugmyndir, drauma um betri heim. Nú á tímum fá arkitektar sjaldan tækifæri til að teikna nýjar kirkjur. Verk þeirra eru mestmegnis veraldleg hús, bankahallir, hótel, leikvangar og fínar villur. Hugsjón módernismans á 3. og 4. áratug 20. aldar um að byggja hagkvæmt og fallegt íbúðarhúsnæði fyrir allan almenning hefur líka gefið eftir. Það er áskorun að teikna byggingu sem á að túlka eitthvað andlegt og huglægt. Á fyrstu áratugum síðustu aldar var meiri virðing borin fyrir því huglæga og listræna í samfélaginu. Í staðinn hefur komið andlegt tómarúm á mörgum sviðum og mér finnst það birtast í byggingarlistinni.“
Rætt er ítarlega við Pétur H. Ármannsson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.