Mohamad Kourani ætlar að áfrýja átta ára fangelsisdómi sem hann hlaut í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Þetta segir Kristján Flygenring, lögmaður Kourani, í samtali við mbl.is. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá.
Kourani hlaut átta ára fangelsisdóm fyrir stunguárás sem hann framdi í versluninni OK Market í Valshverfinu, ásamt öðrum brotum. Kourani neitaði sök í öllum ákæruliðum og fór fram á sýknudóm.
Kristján segir Kourani enn halda fram sakleysi sínu.
„Það er eitt og annað sem hann vill láta reyna á fyrir Landsrétti. Hann heldur áfram fram sínu sakleysi,“ segir Kristján.