Bjarni: „Hrikaleg mismæli“

Samsett mynd/AFP/Ludovic Marin/mbl.is/Eyþór

Bjarni Bene­dikts­son for­sæt­is­ráðherra seg­ir Joe Biden Banda­ríkja­for­seta hafa verið skarp­an og slegið á létta strengi er þeir hitt­ust á leiðtoga­fundi Atlants­hafs­banda­lags­ins í síðustu viku. 

Leiðtoga­fund­ur­inn fór fram dag­ana 9.-11. júlí í Washingt­on. Allra augu voru á Biden eft­ir slæma frammistöðu í kapp­ræðum á milli hans og Don­alds Trumps, fyrr­ver­andi Banda­ríkja­for­seta, tveim­ur vik­um áður.

Það var því ein­stak­lega óheppi­legt fyr­ir Biden þegar hann kynnti Volodimír Selenskí Úkraínu­for­seta sem „Pútín for­seta“ við at­höfn á leiðtoga­fund­in­um.

Í kjöl­farið fór mynd­skeið af viðbrögðum þjóðarleiðtog­a sem voru viðstadd­ir at­höfn­ina í dreif­ingu. Í einu þeirra má meðal ann­ars sjá Bjarna. Ólíkt nokkr­um öðrum þjóðarleiðtog­um beið Bjarni með að klappa eft­ir kynn­ingu Bidens á Selenskí.

Vildi sjá viðbrögð Selenskís

„Ég áttaði mig strax á því að þarna höfðu átt sér stað hrika­leg mis­mæli,“ seg­ir Bjarni í sam­tali við mbl.is.

Þá hafi hann viljað sjá viðbrögð Selenskís áður en hann klappaði.

„Ég vildi nú bara bíða eft­ir því að sjá viðbrögð Selenskís sem að voru mjög tak­mörkuð. Hann sýndi ekki mik­il viðbrögð til að byrja með. Síðan leiðrétti Biden sig og út­skýrði það að hann hefði kannski verið um of að hugsa um Pútín. Svo sagði Selenskí að hann væri bara svo miklu betri en Pútín. Þá svona létt­ist and­rúms­loftið aðeins,“ seg­ir Bjarni.

Biden kynnti Selenskí sem Pútín.
Biden kynnti Selenskí sem Pútín. AFP/​Brend­an Smialowski

Spurður út í reynslu sína af sam­skipt­um við Biden seg­ir Bjarni for­set­ann vera skarp­an.

„Hann var með fram­sögu í nokk­ur skipti og flutti ræður líka í Hvíta hús­inu. Það er ekki annað hægt að segja en að það hafi bara allt sam­an lukk­ast ágæt­lega hjá for­set­an­um. Hins veg­ar var þetta aug­ljós­lega gríðarlega óheppi­legt at­vik. Í þeirri per­sónu­legu viðkynn­ingu sem ég átti við for­set­ann þá var hann bara skarp­ur og sló á létta strengi og ekk­ert við það að at­huga. En auðvitað tek­ur maður eft­ir því að hann er ekki eins snar í snún­ing­um og hann áður var,“ seg­ir Bjarni.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert