Palestínumenn haft í hótunum við matarúthlutun

Formaður Fjölskylduhjálpar segir að hótanirnar komi nær einungis frá Palestínumönnum.
Formaður Fjölskylduhjálpar segir að hótanirnar komi nær einungis frá Palestínumönnum. Samsett mynd/mbl.is/Árni/Eggert

Palestínumenn hafa haft í hótunum síðustu ár við sjálfboðaliða Fjölskylduhjálpar Íslands og fyrir fáeinum dögum þurfti að kalla til lögreglu. Sérdagar verða í matarúthlutun fyrir Íslendinga vegna ruðnings og yfirgangs. 

Þetta segir Ásgerður jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands, í samtali við mbl.is, en hún greindi fyrst frá þessu í viðtali á Bylgjunni í morgun.

„Við höfum þolað hótanir, örugglega í 2-3 ár, en við höfum aldrei talað um það vegna þess að við vitum hvernig andinn í þjóðfélaginu er hjá mjög litlum hópi á Íslandi, en háværum,“ segir Ásgerður. 

Palestínumenn „alltaf verið svona til vandræða“

Hún segir að á þriðjudag hafi verið gríðarleg röð og að tveir Palestínumenn hafi gengið fremst í röðina og krafist þess að fá að vera fyrstir inn.

„Þeir urðu alveg brjálaðir og hótuðu öllu illu og hótuðu að fara heim til fólks og sjálfboðaliðanna.“

Hún segir að hringt hafi verið á lögregluna, en þegar þeir hafi áttað sig á því þá hafi þeir flúið vettvang.

„Þeir hafa alltaf verið svona til vandræða,“ segir hún um Palestínumenn.

Þú talar um hótanir síðustu árin, hafa þær þá venjulega verið koma frá Palestínumönnum?

„Já. Það eru eiginlega þeir einu sem eru, aðrir eru bara mjög kurteisir og þakklátir,“ svarar hún.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands.
Ásgerður Jóna Flosadóttir, formaður Fjölskylduhjálpar Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sérdagar fyrir Íslendinga

Í hverri viku eru bilinu 800-900 fjölskyldur sem fá matarúthlutun hjá Fjölskylduhjálp og raðirnar eru langar. Stundum er ruðningur og yfirgangur að hennar sögn. 

Ásgerður segir að margir Íslendingar vilji ekki bíða í röðunum, séu ýmist veikir og og oft sé um eldri borgara að ræða.

Fjölskylduhjálp hefur því ákveðið að vera með matarúthlutun ákveðna daga aðeins fyrir Íslendinga. Hefst það í næsta mánuði.

„Núna tökum við næstu tvær vikur í það að hugsa hvernig við ætlum að gera þetta,“ segir hún.

„Ég á það ekki skilið“

Ásgerður nefnir að fjölmiðlar hafi verið að spyrja hana hvort að þetta sé ekki mismunun.

„Ég er búin að þegja núna örugglega í þrjú ár en ég gat ekki orða bundist. Þegar maður sakaður um það að þetta sé mismunun, hverju á ég að svara? Ég auðvitað segi nei. Fólkið sem kom til okkar í áratugi, það treystir sér ekki raðirnar. Þá er maður kallaður rasisti og ég hef einu sinni verið jörðuð á netinu, það var ekki geðslegt,“ segir hún og bætir við:

„Það hefur enginn hjálpað jafn mörgum útlendingum og Fjölskylduhjálp Íslands. Ég get alveg fullyrt það. Maður verður svekktur yfir því hvernig þetta er, og eins og við erum að hafa mikið fyrir því að eiga þennan mat. Við erum að hafa gríðarlega mikið fyrir þessu.“

Að lokum segir hún að það sé afskaplega leiðinlegt að vera kallaður rasisti.

„Það er bara ljótt og ég á það ekki skilið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert