Kerfisbilun Microsoft hefur ekki haft nein áhrif á flugumferð Icelandair en kerfi flugfélagsins eru hýst hjá tæknirisanum.
„Við erum með mikla Microsoft-innviði,“ segir Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Icelandair í samtali við mbl.is.
Þrátt fyrir það segir hann umrædda bilun ekki hafa haft nein áhrif á kerfi flugfélagsins.
Unnið sé að því að greina málið og er frekari upplýsinga að vænta síðar í dag, að sögn Guðna.
Að sama skapi gætir áhrifanna ekki hjá flugfélagi Play, að sögn Nadinar Guðrúnar Yaghi, upplýsingafulltrúa félagsins, en kerfi félagsins eru hýst hjá AWS, eða Amazon Web Services.
Aðspurð segir hún allar flugferðir félagsins hafa verið á áætlun í morgun. Flugfélagið sé þó vakandi og fylgist vel með stöðu mála í dag.
„Enn sem komið er höfum við ekki heyrt af neinni seinkun,“ segir Nadine.
Þá hafa örðugleikarnir ekki heldur haft nein áhrif á Keflavíkurflugvelli að sögn staðgengils upplýsingafulltrúa Isavia.