Miðbærinn ekkert „deyjandi“

Lauga­vegi hef­ur að stór­um hluta verið breytt í göngu­götu og …
Lauga­vegi hef­ur að stór­um hluta verið breytt í göngu­götu og mörg­um rót­grón­um versl­un­um hef­ur verið lokað eða rekst­ur þeirra flutt­ur annað. Samsett mynd/Anton Brink

Ljóst er að miðbær Reykjavíkur hefur tekið miklum stakkaskiptum á liðnum árum með aukinni áherslu á ferðamennsku.

Rót­grón­um versl­un­um hef­ur sumum verið lokað eða rekst­ur þeirra flutt­ur annað. Og í þeirra stað rísa ný fyrirtæki, sum hverra auglýsa einvörðungu á ensku enda ferðamaðurinn þeirra besti viðskiptavinur. 

Er þessi þróun áhyggjuefni? mbl.is leitaði álits tveggja miðbæjarbúa.

Nærþjónustan að hverfa

Benóný Ægisson, fyrrverandi formaður Íbúasamtaka miðborgar Reykjavíkur, er ekki alsáttur með ástand miðbæjarins.

„Allar fataverslanirnar eru eiginlega farnar. Kannski margar verslanir sem maður vildi gjarnan hafa,“ segir Benóný.

Hann nefnir að ekki hafi gengið að reka fiskbúð í miðbænum í 20-30 ár og skósmiðum hafi fækkað.

„Það er nærþjónustan sem vantar núna fyrir íbúana.“

En samt segist Benóný í raun ekkert sérstaklega óánægður með þróunina. „Hún er kannski eðlileg.“

Ný ísbúð vakti athygli á dögunum en nafn hennar er …
Ný ísbúð vakti athygli á dögunum en nafn hennar er vissulega torlesið. mbl.is/Aron Brink

Neysluvenjur Íslendinga breytast

Robbi Kronik, eða Róbert Aron Magnússon, markaðs- og verkefnastjóri félagasamtakanna „Miðborgarinnar – Reykjavíkur“, telur breytinguna eðlilega og segir að hún sé í takt við þróun sem sést hefur áður í borgum erlendis.

„Það verður alltaf breyting með fjölgandi fólki, með nýjum kynslóðum og nýjum áhættum og öðru slíku,“ segir Róbert, sem bjó sjálfur í Lundúnum í 11 ár og nefnir að hverfin þar hafi einnig tekið skjótum breytingum með nýju fólki.

Hús Máls og menningar lét uppfæra merkingar á húsnæði sínu …
Hús Máls og menningar lét uppfæra merkingar á húsnæði sínu upp á síðkastið. „The old bookstore“ er nú skreytt í bjórlitum. mbl.is/Anton Brink

Þá nefnir hann einnig að neysluvenjur Íslendinga hafi breyst að undanförnu. Íslendingar sæki nú oftar í stærri verslanir. Þá hefur netverslun einnig haft þau áhrif að Íslendingar þurfa í dvínandi mæli að gera sér ferð í verslanir. 

„Það hefur verið breyting í neyslumynstri hjá okkur og það er bara eitthvað sem spilar inn í. Jafn falleg og æðisleg verslun og Brynja var, þá förum við nú bara í BYKO eða Húsasmiðjuna því þar er bara meira úrval. Okkar neysla hefur líka bara breyst.“

Laugavegur 29, þar sem verslunin Brynja var áður. Hvað skyldi …
Laugavegur 29, þar sem verslunin Brynja var áður. Hvað skyldi opna þarna næst? mbl.is/Anton Brink

„Ekki bara leigja út húsnæði til að leiga út húsnæði“

Róbert bendir þó á að þróun miðbæjarins undanfarin ár sé ekki endilega aðeins á ábyrgð borgaryfirvalda heldur einnig fasteignafélaga og leigusala.

„Mér finnst alveg vert að skoða það að ekki bara leigja út húsnæði til að leiga út húsnæði. Heldur að leigja út húsnæði með einhverja langtímayfirsýn eins og þekkist erlendis,“ bætir Róbert við. Það ætti samt ekki að vera starf borgarinnar að leggja þær línur.

Benóný daðrar einnig við svipaða hugmynd og er þeirrar skoðunar að borgaryfirvöld mættu setja takmarkanir á þann rekstur sem opnar í miðborginni.

„Auðvitað finnst mér að borgin eigi að nota þetta skipulagsvald og láta ekki hvað sem er ganga yfir sig, eins og manni finnst oft vera,“ bætir miðbæjarbúinn við. „Borgin hefur aldrei viljað skipta sér af rekstri, aldrei haft neinn sérstakan stíl eða neina stefnu í því hvernig þjónusta á að vera þarna.“

Katherine auglýsir naglasnyrtingu með gylltu letri við Laugaveg 71 þar …
Katherine auglýsir naglasnyrtingu með gylltu letri við Laugaveg 71 þar sem Hvannbergsbræður voru fyrr á tíð. mbl.is/Anton Brink

Bærinn ekkert að deyja

Robbi Kronik kveðst samt ósáttur við þá umræðu að bærinn sé „deyjandi“.

„Auðvitað þróast hlutirnir og það þarf náttúrulega að þjónusta ferðamenn eins og annað en ég er ekki að sjá að það sé eitthvað að skemma miðborgina. Öll þessi gagnrýni, hvort sem það sé gagnvart ferðamönnum eða að miðborgin sé deyjandi, mér finnst þetta skrítin umræða,“ segir Róbert.

„Maður heyrir oft þessa gagnrýni, að miðborgin sé að halla höfði. Bara alls ekki!“ segir hann og bendir á að verslunum í bænum hafi fjölgað frá ári til árs. „Ég verð að vera ósammála þeirri gagnrýni. Fjölbreytnin hefur aldrei verið meiri.“

Sjálfum finnst Róberti eins og lundabúðum hafi fækkað á allra síðustu árum og samhliða því hafi aðsókn á veitingastaði aukist.

Ein af nokkrum húðflúrstofum er við hlið Hókus pókus sem …
Ein af nokkrum húðflúrstofum er við hlið Hókus pókus sem enn lifir góðu lífi með sína grímubúninga. mbl.is/Anton Brink

AirBnb gleypti nágranna

Þá nefnir Benóný einnig þau áhrif sem AirBnb hefur haft á miðbæinn.

„Ég bý á Skólavörðustígnum og ég er búinn að missa mjög marga nágranna í þá hít,“ segir Benóný. „Þetta er afskaplega mikið breytt hvernig menn lifa núna í miðbænum.“

Sem fyrr segir lýsir Benóný ekki miklum áhyggjum af sjálfri þróuninni. Þótt starfsemin í miðbænum sé afar ferðamannamiðuð hefur hann ekki trú á því að hún verði þannig að eilífu. Einhvern tímann verði að nást jafnvægi.

„Erum við ekki líka að detta úr tísku hjá erlendum gestum?“ spyr hann og bendir á að ferðamönnum hafi fækkað í ár.

„Þetta kemur allt til með að jafna sig. Hef ekki trú á öðru,“ segir Benóný að lokum.

Miðbærinn fær víst aldrei nóg af kebabi.
Miðbærinn fær víst aldrei nóg af kebabi. mbl.is/Anton Brink
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert